149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

áætlun fyrir árin 2019--2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess.

409. mál
[20:04]
Horfa

Una María Óskarsdóttir (M):

Þingforseti. Hæstv. ráðherra. Hér er til umfjöllunar tillaga til þingsályktunar um áætlun fyrir árin 2019–2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess og ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna. Í kafla I er framtíðarsýn og viðfangsefni og segir, með leyfi forseta:

„Aðgerðir sem lúta að réttindum barna og vernd þeirra gegn ofbeldi taki einkum til forvarna og fræðslu, auk aðgerða sem séu til þess fallnar að bæta málsmeðferð í slíkum málum.“

Þá segir enn fremur í kafla II, um markmið og áherslur í lið 2, með leyfi forseta:

„Að komið verði á markvissri fræðslu og forvörnum gegn hvers konar ofbeldi, einkum í skólakerfinu, á íþrótta- og æskulýðsvettvanginum, á vinnustöðum og í stafrænum heimi.“

Ég ætla ekki að eyða tíma í til að telja upp aðgerðir áætlunarinnar sem eflaust gagnast margar hverjar, en ég vil sérstaklega nefna aðgerð A.6 þar sem efla á kennslu um kynheilbrigði og kynhegðun í grunn- og framhaldsskólum. Sú aðgerð er mjög mikilvæg. Það hefur komið fram að hér á landi eru fæðingar ungra mæðra fleiri en annars staðar á Norðurlöndunum og vissulega tilefni til að hafa áhyggjur af því. Þegar ég kom í þingið í fyrsta skipti árið 2005 lagði ég fram þingsályktunartillögu þar sem ég hvatti þáverandi heilbrigðisráðherra til að stofna starfshóp til að vinna gegn óeðlilegu og ótímabæru kynlífi ungmenna og enn þurfum við að sjálfsögðu að vinna í því.

Eins og kom fram hjá hv. þingmanni hér á undan virðist vera ákveðin brotalöm í þessari þingsályktunartillögu. Fram kom að hún er unnin af fjórum ráðuneytum. Einnig kom fram, sem satt er, að forsætisráðuneytið er með sínar áherslur og maður spyr sig hvers vegna svo sé. Það sem ég geri athugasemdir við og furða mig á í tillögunni er að það vantar grundvallaraðgerð, sem er grunnur allra þeirra aðgerða sem þarna koma fram. Það er meira að segja aðgerð sem er þegar samþykkt því að hún er í lýðheilsustefnu sem velferðarráðuneytið setti fram og á sér uppruna í ráðherranefnd um lýðheilsu sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson setti á fót. Lýðheilsustefna var samin af fólki og sérfræðingum í nefndinni. Þetta eru aðgerðir til að aðstoða foreldra við uppeldi barnanna sinna og það er grunnur sem við heyrum mjög mikið frá foreldrum að foreldrar kalla á að fá aukna fræðslu um uppeldishlutverkið og við vitum hvað það skiptir miklu máli í þeim hraða og asa og öllu því sem er að gerast í þjóðfélaginu að foreldrar fái aukna fræðslu um hvernig best megi bregðast við hegðun og framkomu barnanna sinna. Það er að sjálfsögðu á ábyrgð foreldra að kenna börnunum sínum ýmislegt í samskiptum við annað fólk, bæði er varðar ofbeldi og aðra hluti. Það er erfiðasta hlutverk okkar í lífinu að ala upp börn. Þess vegna harma ég að ekki sé litið til lýðheilsustefnunnar, sem var með mjög góðar aðgerðir. Það er kannski oft svo að ekki er litið til þeirra góðu verkefna sem einhverjir aðrir en samflokksmenn eða þeir sem eru við stjórnvölinn hverju sinni setja fram.

Miðflokkurinn mun leggja fram breytingartillögu við þessa þingsályktunartillögu í nefndinni og ég hvet ráðherra til að kynna sér hina góðu lýðheilsustefnu, sem gefur miklar og góðar upplýsingar um námskeið sem ég vil segja ykkur frá. Það er þannig að Þroska- og hegðunarstöð hefur um langt skeið haldið úti námskeiðum sem heita Uppeldi sem virkar. Þau hafa verið kennd við mjög margar ung- og smábarnaverndir hringinn í kringum landið og þau eru akkúrat stíluð inn á foreldra sem eru að stíga sín fyrstu skref í uppeldinu. Námskeiðin skipta mjög miklu máli og fólk er mjög ánægt með þau. Það skiptir máli að stjórnvöld stígi þau skref að aðstoða foreldra í þessu mikilvæga hlutverki og ég hvet ráðherrann áfram í því. Eins og ég sagði mun Miðflokkurinn leggja fram breytingartillögu við þessa þingsályktunartillögu.