149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

áætlun fyrir árin 2019--2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess.

409. mál
[20:10]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra fyrir þessa þingsályktunartillögu sem snýr að því að Ísland verði í fararbroddi þegar kemur að aðgerðum gegn ofbeldi í samfélaginu og hvernig tekist er á við afleiðingar þess. Til þess að geta orðið í fararbroddi þá þurfum við að huga að forvörnum og fræðslu. Við þurfum að huga að málsmeðferð í réttarvörslukerfinu og vinna að valdeflingu þolenda, eins og segir hér í upphafi.

Ofbeldi getur bæði verið líkamlegt og andlegt, og er ekki síður átt við kynbundið ofbeldi, einelti, haturstal og myndbirtingar á stafrænum miðlum sem hvetja til ofbeldis. Það kemur fram í tillögunni að aðgerðir sem lúta að réttindum barna og vernd þeirra gegn ofbeldi taki einkum til forvarna og fræðslu, auk aðgerða sem séu til þess fallnar að bæta málsmeðferð í slíkum málum.

Það er mikilvægt að Alþingi álykti að ofbeldi sé alvarlegt þjóðfélagslegt mein. Það þarf vakningu, það þarf að bæta verklag og vinna að því að ofbeldi í íslensku samfélagi verði ekki liðið. Þetta eru stór markmið og getur tekið tíma að innleiða slíkt og margir steinar eru á leiðinni að því göfuga markmiði að hægt verði að segja að Ísland verði í fararbroddi í þessum efnum.

Aðgerðaáætlun getur falið í sér að renna styrkari stoðum undir samstarf milli lögreglu og ákæruvalds til að bæta stöðu brotaþola í kynferðisbrotamálum og styrkja réttarstöðu þeirra. Núverandi stjórnvöld hafa þegar hafið átak til að styrkja slíka málsmeðferð með því að hrinda í framkvæmd aðgerðaáætlun. Á síðasta ári var bætt við stöðugildum hjá flestum lögregluembættum um landið til að styrkja skilvirkni lögreglunnar í þessum málum og nú er að finna í tillögum í fjárlagafrumvarpi stöðugildi sem fer á Norðurland vestra og þá er hringnum lokað.

Lögreglan er oftast fyrsti staðurinn sem brotaþolinn leitar til. Það er mikilvægt fyrir brotaþola að móttaka og þekking þeirra sem þeir mæta þar sé fagleg og hægt sé að treysta því að málin fari í öfluga og skjóta rannsókn. Sérþekking á þessi málum er nauðsynleg hjá þeim sem fyrstir taka á móti brotaþolum því fyrstu viðbrögð skipta miklu máli fyrir það hvernig brotaþolinn kemur út á endanum.

Við getum fundið hérna ýmsar aðgerðaáætlanir sem mér finnst skipta miklu máli og vil ég nefna t.d. stuðning við svæðisbundið samráð um aðgerðir gegn ofbeldi, eins og stendur hér, með leyfi forseta:

„Stuðningur við svæðisbundnu samráði um aðgerðir gegn ofbeldi. Árlega verði tilteknu fjármagni af safnliðum fjárlaga, vegna verkefna á sviði félagsmála, varið til styrktar svæðisbundnu samstarfi eða til ákveðinna verkefna sem styðja við aðgerðir gegn ofbeldi.“

Markmiðið er að efla svæðisbundið samráð gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli og hefur þegar byrjað víða um land og t.d. hefur lögreglan verið í samstarfi við sveitarfélög vegna heimilisofbeldis, til að uppræta það og koma með leiðir til að reyna að sporna gegn því. Markmið samstarfsins er að auka þekkingarmiðlun og bæta verklag til að taka á heimilisofbeldismálum, veita þolendum og gerendum betri þjónustu og vernda börn sem búa við heimilisofbeldi.

Þetta eru allt mikilvæg mál og það sem er kannski rauður þráður í gegnum þessa þingsályktunartillögu er fræðsla. Það eru margar leiðir að fræðslu og ég tel það sem hv. þm. Una María Óskarsdóttir nefndi hér áðan um lýðheilsu skipta máli og eiga heima í þessari tillögu. Þótt hún sé ekki endilega nefnd hér þá er það starf sem hefur verið unnið að í lýðheilsumálum verkfæri sem væri hægt að nýta hér og ég held að það sé alls ekki verið að ganga fram hjá því í þessari tillögu, síður en svo. Við höfum í gegnum tíðina verið með mjög góð og öflug verkfæri sem við höfum nýtt sem ég held að komi hér að góðum notum og ég held að lýðheilsuverkefnið sé einmitt verkefni sem væri mjög gott að leiða hér inn.

Hér er talað um kvennaathvarf á landsbyggðinni. Kvennaathvarfið í Reykjavík er úrræði fyrir konur og börn til að dvelja á þegar óbærilegt er vegna ofbeldis að búa heima. Við höfum ekki haft neitt úrræði á landsbyggðinni og ég held að það sé mikilvægt, eins og hér kemur fram, að stofnaður verði samstarfshópur eða starfshópur sem falið verði að kortleggja og meta þessa þörf, sem er svo sannarlega fyrir hendi. Það er ansi langur vegur fyrir konur sem lenda í heimilisofbeldi og börn að leita hingað suður, það er stundum nógu erfitt að komast út um dyrnar heima hjá sér, hvað þá að fara á milli landshluta til að leita í öruggt skjól. Þess vegna held ég að þetta sé mjög mikilvægur áfangi til þess að tryggja þolendum ofbeldis aðgang að sérhæfðum stuðningsúrræðum óháð búsetu.

Hér er nefndur árlegur landssamráðsfundur um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Ég held að þetta sé mjög góður vettvangur margra aðila, lögreglunnar, skólakerfisins, yfirvalda, sveitarfélaga. Þetta eru allt aðilar og miklu fleiri sem koma að þessum málum og skiptir máli að þetta samtal fari fram.

Það er margt fleira í þessari tillögu sem er mikilvægt, svo sem vitundarvakning í samfélaginu gegn haturstali. Mér finnst það skipta miklu máli í þeim hremmingum sem samfélagið hefur gengið í gegnum á síðustu dögum að þetta sé tekið upp og nefnt og fái rými, því að haturstal er að finna víða, ekki bara síðustu daga heldur er það að finna líka á samfélagsmiðlum og manna í millum. Ég held að það skipti gríðarlega miklu máli að tekið sé utan um þolendur í slíku ofbeldi, því þetta er ofbeldi, og það sé viðurkennt og þeir fái svigrúm og vernd. Manni finnst stundum þetta ofbeldi fá svo lítið vægi, eins og það skipti ekki máli. Orð hafa afleiðingar og orð geta sært og skilið efti bæði særindi og varanlega áfallastreituröskun hjá fólki sem hefur orðið fyrir því. Það er ekki nægjanlegt að setja plástur á skotsárið. Það þarf að taka kúluna í burtu.

Það er bent á skýrslu um hatursorðræðu og hér er yfirlit um gildandi lög og reglur og gefnar fjölmargar ábendingar um aðgerðir til að stemma stigu við haturstali hér á landi. Það er oft talað um að hatursorðræðan sé fyrsta skrefið að líkamlegu ofbeldi. Við þekkjum þetta á samfélagsmiðlum þar sem kannski er ungt fólk og verður fyrir þessu og það er enginn áhorfandi nema sá sem verður fyrir því og sá sem beitir því.

Mig langaði líka til að nefna, þar sem hér kom fram að það þætti ekki nóg að þessi fjögur ráðuneyti væru með þetta málefni, að ég held að þetta sé bara málefni allra ráðuneyta og okkar allra að koma þessu áfram, vera meðvituð um þetta. Þannig getum við haft Ísland í fararbroddi gegn ofbeldi. Ég vil bara segja að lokum að ég mun fylgja þessu áfram inn í velferðarnefnd.