149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

áætlun fyrir árin 2019--2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess.

409. mál
[20:23]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður var kannski ekki með neina beina spurningu en ég tel að hún hafi verið að taka undir það sem kom fram. Ég held að við höfum mörg verkfæri sem við getum nýtt. Það er bara „common sense“, t.d. þær uppeldisaðferðir sem við bæði þekkjum og höfum beitt og þá held ég að fræðsla sé númer eitt, tvö og þrjú. Ef við tökum til að mynda hinsegin fólk, transfólk, þá skiptir gríðarlega miklu máli að slík fræðsla komist inn til barnanna.

Það gerist fyrst og fremst í gegnum uppeldið og heimilið, síðan í skólunum, þar sem ég veit að er góð fræðsla. En það er mikilvægt að það verði vakning og að virðingin sé borin áfram, hvort sem er í gegnum uppeldið eða skólagöngu eða í samskiptum hvert við annað. Þá held ég að auðmýkt skipti máli og að við berum virðingu hvert fyrir öðru, hvaða verkfæri sem við notum sem dugar í það, hvaða nafni sem það nefnist. Ég held að það sé alls ekki verið að gera lítið úr neinu hér þótt það hafi kannski ekki verið orðað.

(Forseti (ÞorS): Forseti bendir í góðsemd á að þingmálið er íslenska.)