149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

áætlun fyrir árin 2019--2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess.

409. mál
[20:32]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir að leggja fram þessa aðgerðaáætlun gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Kannski í ljósi þess sem á daga okkar hefur drifið undanfarið, ekki síst, og allra þeirra byltinga sem við höfum verið þátttakendur í þá held ég að það sé hvatning til að gera enn betur en gert hefur verið mjög víða í samfélaginu, eins og hér hefur verið minnst á, ekki síst innan skólakerfisins, innan réttarvörslukerfisins og víðar.

Ég ætlaði bara rétt að klukka þetta mál hérna, en það sem mér finnst vera mikilvægt, af því að ég kom inn í umræðuna um fræðslu til handa foreldrum og öðrum og fræðslan getur farið fram í gegnum skóla og í gegnum heilsugæsluna og á fleiri stöðum auðvitað, en fyrst og fremst held ég að það sé afskaplega mikilvægt að það fólk sem starfar með börnum í umhverfi þar sem áreiti er mikið, og það er alls konar, fái þá fræðslu sem þörf er á á hverjum tíma. Auðvitað þurfum við líka að gera vel og betur í því að efla fræðslu og eftirfylgni með þeim úrræðum sem við höfum þó varðandi þessi mál þegar kemur að ofbeldi.

Hér er fjallað um aðgerðaáætlun um gæðakröfur og vottun um fyrirmyndarstarf í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Þar höfum við líka heyrt ljótar sögur þar sem hefur verið ofbeldi af margs konar tagi. Hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra lagði m.a. hér á dögunum fram tillögu um samskiptafulltrúa hjá íþrótta- og æskulýðsfélögum til að vera yfir því starfi og ásamt því sem hér er nefnt er það eitt af því sem getur hjálpað til að mínu mati þegar kemur að því að taka á svona málum.

Það er mikil þörf gagnvart börnum og gagnvart ungu fólki líka sérstaklega að fræðast um mjög margt þegar kemur að ofbeldi, sérstaklega í ljósi allra þeirra miðla sem aðgangur er að og alls þess kláms og annars slíks sem í boði er og virðist það enn þá vera þannig að sérstaklega íslenskir ungir piltar skora allt of hátt þar. Þá er mikilvægt að á öllum þeim vígstöðvum sem við getum komið því við sé fræðsla. Hvernig hún fer fram er auðvitað eitthvað sem þarf að útfæra.

Nú erum við lögð af stað með það að setja upp geðheilsuteymi á heilsugæslunum. Þar ætti þessi samræmda heilsuvernd skólabarna að geta hjálpað til líka, m.a. að til bregðast við en líka með forvörnum. Það er auðvitað það sem við þurfum að gera. Við þurfum að efla forvarnir til að reyna að koma í veg fyrir þessi mál, svo að við þurfum að takast á við sem allra fæst málefni af þessu tagi.

Ég er ánægð með að þetta mál er komið fram og vona svo sannarlega að það fái vandaða umfjöllun í velferðarnefnd. Ég tel líka að það sé ástæða til þess að við reynum að koma þessu verkfæri af stað, samþykkja þetta þannig að við getum farið að vinna eftir þessu. Þó að margt sé vel gert og verið að gera marga af þessum hlutum þá er betra að hafa þetta klappað og klárt og formið sé í lagi.

Virðulegur forseti. Ég hvet fulltrúa velferðarnefndar sem hér sitja að sjá til þess að málið fái vandaða umfjöllun en líka skjóta.