149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Við getum deilt endalaust um það hvort glasið er hálffullt eða hálftómt, en við hljótum þó að fagna því þegar góðar fréttir berast af stöðu ríkissjóðs sem nýlega keypti upp skuldabréf af Seðlabanka Íslands, samtals að fjárhæð 24 milljarðar, þannig að heildarskuldir ríkisins eru núna 843 milljarðar eða rétt um 30% af landsframleiðslu. Hrein staða ríkissjóðs á grundvelli laga um opinber fjármál, þ.e. þegar sjóður og innstæður hafa verið dregnar frá heildarskuldum, nemur því um 653 milljörðum. Þetta eru 23% af vergri landsframleiðslu og hafa algjör umskipti orðið í ríkisfjármálunum á undanförnum árum sem er sérstakt gleðiefni. Það er gleðiefni, ekki síst fyrir unga fólkið sem horfir upp á að við sem eldri erum erum hætt að gefa út víxla. Við erum hætt að taka út lífskjör komandi kynslóða. Við erum þvert á móti farin að byggja aftur upp. Það eru gleðifregnir og það er eitthvað sem við eigum að lofa okkur sjálfum, en ekki síst yngra fólkinu, að við munum halda áfram að gera af trúmennsku.

Hrein staða þjóðarbúsins hefur aldrei verið betri en núna, 13,13% af landsframleiðslu. Þetta eru gleðitíðindin, þetta er það sem við eigum að hafa í huga. Þetta skiptir máli núna hér síðar í dag og hugsanlega fram í nóttina þegar við tökumst á (Forseti hringir.) og hefjum lokaafgreiðslu á fjárlögum ársins 2019.