149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

störf þingsins.

[15:13]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Ég ven mig á að spara stóru orðin því að ég vil leyfa fólki að njóta vafans. Síðasta sólarhringinn hefur hins vegar þingheimur í tvígang orðið vitni að málflutningi sem verðskuldar stór orð. Þeir sem orðin eiga hafa annaðhvort ekki lesið það sem þeir gagnrýna eða þeir vísvitandi segja ósatt. Um er að ræða annars vegar ræðu hv. þm. Jóns Þórs Þorvaldssonar í gær og hins vegar tölvupóst sem þingmenn fengu frá CSPII um samkomulag á vegum Sameinuðu þjóðanna um örugga, skipulagða og reglulega fólksflutninga, á ensku „Global Compact for Safe, Orderly and Regular Migration“.

Nú á greinilega að búa til og næra þá fáránlegu hugmynd að sjálfstæði Íslands stafi ógn af Sameinuðu þjóðunum. Ég hvet þingmenn til að bera saman gagnrýni póstsins við efni samkomulagsins því að það sýnir innrætið best. Óheiðarleikinn hlýtur að ganga fram af hverjum sem les. Hv. þingmaður sagði hér í gær að samkomulagið myndi opna landamæri Íslands fyrir nánast öllum jarðarbúum og vegið væri að vestrænu samfélagi. Þetta er sama orðræða og var í aðdraganda setningar nýrra útlendingalaga, að sjálfsögðu eintóm vitleysa og augljóslega svo.

Ég hef fengið mig fullsaddan af því að í hvert sinn sem útlendinga ber á góma stökkvi til popúlistar og valdhyggjusinnar, veifi fána allra Íslendinga og berji sér á brjóst fyrir að standa vörð um sjálfstæði Íslands. Hvílíkt bull. Þetta samkomulag snýst um að takast heildstætt á við raunveruleg vandamál sem fylgja miklum fólksflutningum innan ramma laga og aðstæðna hvers ríkis, eins og kemur skýrt fram í samkomulaginu þegar það er lesið. Greinilega er þörf á því að ræða þetta meira hér, get ég þó tekið undir.

Þá mættu gagnrýnendur kynna sér efnið í stað þess að misnota sjálfstæðiskennd og ættjarðarást Íslendinga til þess eins að marka sér pólitíska stöðu. Það að framleiða innstæðulausan ótta á kostnað mikilvægra verkefna við úrlausn erfiðra vandamála er ekki vörður um sjálfstæði Íslands og allra síst frjálslynd lýðræðisgildi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)