149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

störf þingsins.

[15:18]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Til að taka saman undir störfum þingsins hvernig við á þingi förum með mál eins og Klausturmálið sem var kært eða kvartað yfir í forsætisnefnd þá varðaði eitt atriði í því skjali sem kvartað var yfir mögulega ráðherraábyrgð, þ.e. að ráðherra hefði brotið af sér í starfi. Svo að landsmenn skilji hvernig þeim málum er háttað ætlaði forsætisnefnd að vísa til siðanefndar öllum atriðunum nema því sem varðaði ráðherraábyrgðina vegna þess að þau atriði áttu sér stað áður en siðareglurnar voru settar fyrir tveimur árum. Það er góð meginregla, alveg aftur til rómverska lýðveldisins fyrir meira en 2.000 árum síðan, að maður refsar ekki fólki afturvirkt, með afturvirkum lögum. Það er komið í reglur þannig að hvar situr það atriði? Forsætisnefnd vísaði þeim þætti, þ.e. þeim sendiherrakapli frá, en tók hin atriðin. Þau munu fara til siðanefndar.

Hvar er þá þessi ráðherrakapall, ábyrgð ráðherra að vera ekki að misnota aðstöðu sína hvað það varðar? Í sérstökum umræðum í gær sem hv. þm. Björn Leví Gunnarsson átti við hæstv. forsætisráðherra Katrínu Jakobsdóttur talaði hann um ráðherraábyrgð og landsdóm. Kom fram að hæstv. forsætisráðherra var ekki ánægð með landsdómsfyrirkomulagið en nefndi að á þeim tíma þegar hún var í ríkisstjórn samþykkti ríkisstjórnin að setja á fót stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem hefði ábyrgð á eftirlitsskyldu gagnvart framkvæmdarvaldinu og ráðherrum sérstaklega og gæti farið í rannsókn og jafnvel sett á fót rannsóknarnefndir, sem hún nefndi, hvað það varðaði.

Sá þáttur málsins sem varðar ráðherraábyrgð Gunnars Braga Sveinssonar, þá hæstv. ráðherra, á því að vera mögulega að skipa aðila sem sendiherra í skiptum fyrir greiða, á heima í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og hefur stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að frumkvæði formannsins, Helgu Völu Helgadóttur, samþykkt að kalla fyrir nefndina þá aðila sem um ræðir, Gunnar Braga Sveinsson, Sigmund (Forseti hringir.) Davíð Gunnlaugsson, Bjarna Benediktsson og Guðlaug Þór Þórðarson, hv. og hæstv., til að skoða það mál ofan í kjölinn.