149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

störf þingsins.

[15:22]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Í gær birtust upplýsingar um laun og starfskostnað þingmanna frá árinu 2007. Mig langar til að nota tækifærið til að hrósa þinginu fyrir að hafa loksins tekið annað skref í áttina að auknu gagnsæi og aðhaldi borgara gagnvart störfum þingmanna. Fyrsta skrefið var að birta þessar upplýsingar jafnóðum og þær urðu til. Þetta er skref nr. 2, að birta söguleg gögn.

Það þarf auðvitað að stíga fleiri skref. Til þess erum við með ýmsar fyrirmyndir, t.d. er hægt að líta til Bretlands þar sem hver sem er getur skoðað sundurliðun hverrar ferðar á vef IPSA, sem er sjálfstæð eftirlitsstofnun gagnvart þinginu eða Independent Parliamentary Standards Authority. Þar get ég t.d. séð að Damien Hinds fékk endurgreitt fyrir ferðalag á eigin bíl innan kjördæmis upp á 3,51 pund 18. maí 2018.

Í síðustu viku gerðist ýmislegt. Yfirlýsingar nokkurra þingmanna urðu opinberar og öllum á að vera augljóst að þær yfirlýsingar varða siðareglur þingmanna. Forsætisnefnd brást snarlega við og virkjaði siðanefnd samkvæmt siðareglum. Í síðustu viku afgreiddi forsætisnefnd annað mál þar sem einnig var um að ræða opinberar yfirlýsingar sem öllum má vera augljóst að varða einnig siðareglur þingmanna. Samt var því erindi vísað frá. Í gögnum málsins kemur augljóslega fram að það telst ekki vera hluti af starfi þingmanns að sinna kosningabaráttu og þar af leiðandi á hann ekki að geta fengið ferðir vegna kosningabaráttu endurgreiddar frá þinginu.

Ég hef áður spurt um gögn vegna ferða þingmanna í kringum kosningar. Þar kemur skýrt og greinilega í ljós að ferðir aukast marktækt fyrir kosningar. Eftir að hafa gengið í gegnum kosningar sjálfur hef ég ekki orðið var við að eftirspurn hafi verið eftir mér sem þingmanni heldur hefur verið eftirspurn eftir mér sem frambjóðanda. Það ætti því að vera augljóst öllum að slíkt getur ekki flokkast undir ferðir í tengslum við störf þingmanns. En þrátt fyrir gögn og opinberar yfirlýsingar um endurgreiðslur vegna kosningabaráttu vísar forsætisnefnd brott erindinu um að rannsaka slíkt sem brot á siðareglum. Fleiri fyrirspurnir um málið eru á leiðinni.