149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

störf þingsins.

[15:29]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Utanríkismál og samskipti við aðrar þjóðir skipta okkur miklu máli. Við eigum allt okkar undir góðum og greiðum samskiptum við aðrar þjóðir. Við eigum að gera okkur eins gildandi og í okkar valdi stendur í samvinnu við aðrar þjóðir um verkefni sem varða heimsbyggðina alla. Í því samhengi vil ég nota tækifærið til að nefna tvennt. Í fyrsta lagi er það nauðsyn þess að við eigum öfluga utanríkisþjónustu, skipaða úrvalsfólki þar sem með eru auðvitað taldir sendiherrar okkar á erlendri grundu. Í lögum um utanríkisþjónustuna er starfsmönnum hennar skipt í fimm meginflokka og í fyrsta flokki eru ráðuneytisstjóri og sendiherrar. Í 14. gr. sömu laga kemur fram að lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins gildi um þá starfsmenn með þeirri veigamiklu undantekningu þó að heimilt er að víkja frá þeim reglum starfsmannalaganna sem kveða á um að laus embætti skuli auglýsa í Lögbirtingablaði.

Að mínu mati er sú undanþáguheimild óþörf. Hún skapar einungis hættu á að illa sé með farið, hættu á að önnur sjónarmið ráði í vali sendiherra en þau að fá þann hæfasta til starfsins hverju sinni. Af þeim sökum hyggst ég flytja frumvarp þess efnis að fella niður þessa undanþáguheimild úr lögum um utanríkisþjónustuna.

Hitt atriðið sem ég vil nefna er að ég hvet hæstv. utanríkisráðherra til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákaflega mikilvægt samkomulag Sameinuðu þjóðanna um fólksflutninga, á ensku, með leyfi forseta, „Global Compact for Safe, Orderly and Regular Migration“, sem verður undirritaður í Marakess eftir nokkra daga. Auðvitað væri best ef utanríkisráðherra gæfi strax út yfirlýsingu um að Ísland muni undirrita samkomulagið. Orð sem voru látin falla hér í gær undir liðnum um störf þingsins um þann samning eru með miklum eindæmum.