149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2019.

3. mál
[16:06]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Þetta frumvarp er ein af forsendum fyrir tillögum í fjárlagafrumvarpinu sem gert er ráð fyrir að við greiðum atkvæði um á föstudaginn. Hér er verið að tala um að hækka gjöld og framlengja ýmis bráðabirgðaákvæði, svo sem um víxlverkun örorkubóta almannatrygginga og örorkulífeyris og um hækkun á frítekjumarki örorkulífeyrisþega vegna atvinnutekna við útreikning tekjutryggingar um að nýta megi Framkvæmdasjóð aldraðra til að reka hjúkrunarheimili og að starfsendurhæfingarsjóðir fái ekki tekjur af almennu tryggingagjaldi á árinu 2019, svo dæmi séu tekin.

Heildarhugsun og framtíðarsýn í þessum málaflokkum er engin, heldur eru bráðabirgðaákvæði framlengd ár eftir ár þó að aðstæður hafi breyst umtalsvert frá því að þau voru fyrst samþykkt. Við í Samfylkingunni munum ekki styðja þetta frumvarp.