149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2019.

3. mál
[16:07]
Horfa

Smári McCarthy (P) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það er ýmislegt allt í lagi við þetta frumvarp en það er mjög víða sem það gengur mun skemmra en maður hefði vonað. Það eru tvö þemu sem einkenna frumvarpið, annars vegar að áframhald er á bráðabirgðaákvæðarunu sem dregur úr getu samfélagsins til að gera langtímaáætlanir og geta spáð fyrir um framtíðina. Það þarf að fara að hætta að viðhalda viðstöðulausum bráðabirgðaákvæðum og frekar festa þetta í sessi.

Hitt er að það vantar að stigin séu nauðsynleg skref til að ná langtímamarkmiðum og þá kannski ekki síst í umhverfismálum. Það er ljóst að það verða bæði að vera jákvæðir og neikvæðir efnahagslegir hvatar til ná markmiðum okkar í loftslagsmálum og hér er ekki nóg að gert.