149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

155. mál
[16:30]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hér er gert ráð fyrir uppskiptingu á velferðarráðuneytinu með tilheyrandi kostnaðarauka fyrir ríkissjóð án þess að á nokkru stigi málsins hafi verið færð neitt sérstaklega sannfærandi rök fyrir því hverju það eigi að skila. Hér er uppskipting af pólitískum ástæðum sem verður á endanum á kostnað skattgreiðenda og, það sem verra er, er að horfið er frá áformum sem skila áttu verulegri hagræðingu fyrir ríkissjóð í formi bættrar samvinnu og samlegðar milli félagsmálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis.

Mér þykir þetta mál sýna æðimikinn skort á heildarsýn á þennan mikilvæga málaflokk sem skýrir liðlega helming útgjalda ríkissjóðs og gríðarlega mikilvægt er að vel sé haldið á. Ég get því ekki stutt þetta mál.