Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

155. mál
[16:31]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég fagna þessu frumvarpi og því að það sé komið hingað til lokaafgreiðslu. Ég held að reynslan hafi sýnt að það er skynsamlegt að greina á milli þeirra málaflokka sem heyra undir þessi tvö ráðuneyti með skýrum hætti. Ég held að þeim verði betur sinnt með því fyrirkomulagi sem hér er boðað en því sem verið hefur.

Það er rétt sem hv. þm. Þorsteinn Víglundsson benti á, að hér er um að ræða málaflokka sem taka til sín sennilega um helming útgjalda hins opinbera. Ég held að sú vinna sem hér er verið að leggja upp með með aðgreiningu í heilbrigðisráðuneyti annars vegar og félagsmálaráðuneyti hins vegar, muni skila markvissari stefnumótun og stjórnsýslu á þeim sviðum.

Hér er verið að hverfa frá breytingu sem ákveðin var með breytingu á stjórnarráðslögunum 2011, sem ég lagðist gegn á sínum tíma. Ég fagna því að nú sé kominn meiri hluti í þessum sal fyrir því að breyta til baka.