Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

155. mál
[16:35]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við þessa atkvæðagreiðslu vil ég nota tækifærið til að þakka hv. þingnefnd vinnuna við þessa þingsályktunartillögu og að niðurstaða skuli vera komin í málið. Þau sjónarmið sem fram koma í breytingartillögum minni hluta eru sjónarmið sem ég get að mörgu leyti tekið undir því að ég held að í besta mögulega árferði væri það framkvæmdarvaldsins að skipta með sér verkum. Ég held að það færi vel á því að við skoðuðum hvernig þessu er fyrir komið í stjórnarráðslögunum.

En ég tel að hér liggi fagleg rök til grundvallar. Hér höfum við tvö skörp og skýr ráðuneyti utan um þessa tvo mikilvægu málaflokka. Greining liggur að baki sem ráðuneytin hafa skoðað og ég hlakka til að sjá báða þessa málaflokka styrkjast við breytt fyrirkomulag. En við þurfum sannarlega að skoða vel fyrirkomulag á tilteknum málaflokkum, og vísa ég þá sérstaklega til málefna aldraðra.