Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

155. mál
[16:37]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ólíkt þeim hv. þingmanni sem stóð hér á undan mér fagna ég þessari þingsályktunartillögu, að við séum að skipta upp velferðarráðuneytinu vegna þess að það mun styrkja stjórnsýslu beggja þessara málaflokka. Eins og komið hefur fram fer um helmingur allra útgjalda ríkissjóðs í þessi tvö ráðuneyti. Ég vil líka segja að það verður áframhaldandi góð samvinna á milli heilbrigðisráðuneytis og félagsmálaráðuneytis vegna þess að sú samvinna byggist ekki eingöngu á því að þau séu í sama ráðuneyti. Hún byggist líka á fólkinu sem þar situr. Ég vil einnig segja að verið hefur mjög góð samvinna milli mín og hæstv. heilbrigðisráðherra. Sú samvinna mun halda áfram þrátt fyrir að við styrkjum þessa tvo málaflokka með því að skipta upp ráðuneytinu.

Ég fagna því líka að við skulum styrkja húsnæðismálin. Við erum að setja aukinn kraft í málefni barna og sú breyting sem þar er að verða mun líka spila inn í þá vinnu sem er í gangi af hálfu þverpólitískrar nefndar um það málefni. Ég fagna því þessari þingsályktunartillögu gríðarlega. Það er ánægjulegt að hún sé komin á lokastöð. Ég þakka stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fyrir vinnslu þessa máls.