Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

155. mál
[16:38]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það sem við í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og Alþingi erum ábyrg fyrir í þessu máli er hvað ráðuneytin eiga að vera mörg annars vegar og hins vegar hvað þau eiga að heita. Allt annað tal, um að færa ákveðna málaflokka á milli, varðar ekki þetta mál af því að það er nokkuð sem forsætisráðherra getur lagt til við forseta Íslands, að ákveðin málefni falli undir ákveðin ráðuneyti, og síðan að ákveðnir ráðherrar beri ábyrgð á ákveðnum málaflokkum. Það er ekki það sem við erum að ræða hér, en það hefur verið nefnt hérna í orðræðunni

Hvað mega ráðuneytin vera mörg? Mér finnst það mjög gott að þessu sé skipt af skilvirkni á milli heilbrigðisráðherra annars vegar og félagsmálaráðherra hins vegar til að það sé sérráðuneytisstjóri með fókus á sína málaflokka, af því að þetta eru risastórir málaflokkar, bróðurparturinn af fjárútgjöldum ríkisins fer til velferðarmála. Þessi skipting finnst mér bara mjög góð eftir að hafa fylgst með þessu máli í nefndinni.

Svo er það hitt, hvernig verið er að færa málaflokkana til. Mér sýnist það líka vera skynsamlegt þó að það sé ekki það sem við greiðum atkvæði um hér, að færa t.d. húsnæðismálin undir félagsmálaráðherra, (Forseti hringir.) af því að húsnæðismálin og rétturinn til þess og staðan á húsnæðismarkaði í dag ættu einmitt að vera félagslegi fókusinn frekar en skipulagsfókusinn, af því að þar er nauðin í dag.