Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

155. mál
[16:40]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég vil sömuleiðis fagna því að þessi tillaga sé hér komin til afgreiðslu og þakka hv. þingnefnd fyrir að hafa lokið umfjöllun sinni um málið. Ég get glatt formann nefndarinnar með því að ég hef bæði fylgst með umræðum og umsögnum um málið og veit að þar hafa til að mynda gestir á borð við Jafnréttisstofu og Barnaverndarstofu lýst mikilli jákvæðni í garð þess, annars vegar að þyngja eigi málaflokk barna í félagsmálaráðuneytinu og hins vegar að jafnréttismálin eigi að fá sinn sess í forsætisráðuneytinu og þar með vera hluti af allri stjórnsýslunni. Mér er kunnugt um þá gagnrýni sem komið hefur fram á flutning mannvirkjamálanna en vil segja að ég treysti félagsmálaráðuneytinu, sem fer með svo stóran hluta af húsnæðismálunum, mjög vel til að halda utan um það og tel að það hafi mikil fagleg tækifæri í för með sér.

Síðast en ekki síst tel ég mjög mikilvægt að þau ráðuneyti sem fara munu með þessa mikilvægu málaflokka, sem eru sömuleiðis stór hluti allra ríkisútgjalda, að þau munu um leið fá faglega styrkingu og eflingu sem ég tel að sé í senn hagkvæmt til lengri tíma og mikilvægt fyrir þessa málaflokka. Ég fagna því að þessi tillaga sé komin til afgreiðslu og mun að sjálfsögðu styðja hana.