Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

155. mál
[16:42]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég gat þess í umræðum að ég teldi að breytingartillaga minni hlutans í þessum efnum byggði á ákveðnum misskilningi. Ég lít svo á að lögin geri kröfu um að þingið taki efnislega afstöðu til málsins sem hér er lagt fram, ekki eingöngu formlega, eins og mér fannst að ráða mætti af orðum tillöguflytjenda eða þeirra sem undirrituðu nefndarálitið. Í lögskýringargögnum er beinlínis kveðið á um að tillaga forsætisráðherra að þessu leyti þurfi að koma til þingsins og skuli fá efnislega umfjöllun. Þess vegna tel ég ekki ástæðu til að samþykkja þessa tillögu heldur fella hana af því að mér finnst örla á misskilningi á hlutverki þingsins í þessu sambandi. Það var meðvituð ákvörðun þingsins 2011 að Alþingi hefði eitthvað um það efnislega að segja hvernig skipan ráðuneyta væri.