149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:46]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Við erum að hefja 3. umr. um frumvarp til fjárlaga og ég mæli fyrir nefndaráliti frá meiri hluta hv. fjárlaganefndar. Eins og við vitum tók nefndin málið til sín á milli umræðna eftir 2. umr. og hefur fjallað um málið og nokkur atriði sem þurfti að ræða og taka fyrir.

Áður en ég kem að því sem kemur fram í nefndaráliti meiri hluta vil ég nefna að við 2. umr. voru lagðar fram ýmsar tillögur til hagræðingar og m.a. voru 144 milljónir færðar til lækkunar á Rannsóknasjóði, málaflokkur 7.10, sem eru um 5% af þeim sjóði, 1,7% af málaflokknum og 1,2% af málefnasviði 7, Nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar.

Í samráði við hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra mun hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra leysa þetta að hluta innan síns ramma og nýta það verkfæri sem lög um opinber fjármál heimila. Meiri hluti fjárlaganefndar mun jafnframt mæta því með viðbótarframlagi til að við tryggjum það að sjóðurinn verði ekki fyrir þeirri skerðingu.

Eins og ég sagði tók nefndin málið til sín og ætla ég nú að víkja að því sem fram kemur í nefndaráliti meiri hluta. Nefndin hefur fjallað um málið og kallað til sín fulltrúa frá Öryrkjabandalagi Íslands, fjármála- og efnahagsráðuneytinu, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og Íslandspósti ohf. Meiri hlutinn leggur til nokkrar breytingartillögur til hækkunar gjalda en einnig eru lagðar til fjölmargar millifærslur fjárheimilda sem sérstaklega er gerð grein fyrir í álitinu. Mun ég fara stuttlega yfir í hverju þær felast en hverri breytingu verða gerð nákvæm talnaskil og áhrif í heild sinni í sérstökum yfirlitum sem fylgja í áliti þessu.

Í lögum um opinber fjármál er kveðið á um að reikningsskil fyrir A-hluta ríkissjóðs skuli gerð á grundvelli alþjóðlegra reikningsskilastaðla. Í því felast fjölmargar breytingar á núverandi uppgjörsaðferðum, bæði hjá ríkissjóði í heild og hjá einstökum ríkisaðilum. Ein breytingin lýtur að því að kaup á varanlegum rekstrarfjármunum, svo sem bílum og meiri háttar tölvubúnaði, skal eignfæra og afskrifa á líftíma eignarinnar í stað þess að gjaldfæra þau að fullu á kaupári eins og tíðkast hefur fram til þessa.

Slík breyting kallar á flutning fjárheimilda vegna varanlegra rekstrarfjármuna af rekstrarframlögum yfir í fjárfestingarframlög. Nákvæma sundurliðun af því tagi er að finna í yfirliti 1 í áliti þessu og millifærslur sem þarf að framkvæma innan hvers málefnasviðs og málaflokks A-hluta ríkissjóðs. Samtals er lagt til að rekstrarframlög lækki um 4.624,6 millj. kr. og á móti hækki fjárfestingarframlög um sömu fjárhæð. Um er að ræða breytingartillögu við sundurliðun 2 í frumvarpinu.

Í frumvarpinu var ekki tekið tillit til þessarar breytingar en gerð er tillaga um það núna við 3. umr. og er breytingartillöguna að finna í sérstöku þingskjali, nr. 584. Í því felst að gjaldaheimildir allra málefnasviða og málaflokka eru lækkaðar sem nemur áætlaðri fjárfestingu og þess í stað veitt samsvarandi fjárfestingarframlög. Hér er því um millifærslur að ræða sem breyta hagrænni skiptingu gjalda en hafa engin áhrif á heildarafkomu ríkissjóðs á þjóðhagsgrunni samkvæmt 1. gr. frumvarpsins. Sambærilegar millifærslur þarf að gera vegna yfirstandandi árs og meiri hlutinn væntir þess að í frumvarpi til fjáraukalaga verði gert ráð fyrir þeim.

Í öðru lagi eru gerðar breytingartillögur við frumvarpið til samræmis við fyrirhugaðar breytingar á skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands og flutning verkefna milli ráðuneyta samkvæmt tillögu til þingsályktunar sem lögð var fram á Alþingi 26. september sl., mál 155, og var hér til 2. umr. í gær, 4. desember, þar sem eru lagðar til breytingar á heiti og fjölda ráðuneyta sem fela í sér að í stað velferðarráðuneytis komi annars vegar heilbrigðisráðuneyti og hins vegar félagsmálaráðuneyti. Í yfirliti 2 er sýnt hvernig ríkisaðilar sem áður féllu undir velferðarráðuneytið skiptast á milli félagsmálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis.

Að auki eru lagðar til breytingar vegna fyrirhugaðs flutnings jafnréttismála frá velferðarráðuneyti til forsætisráðuneytis og flutnings málefna mannvirkja frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti til nýs ráðuneytis félagsmála. Samtals nemur flutningur jafnréttismála um 401 millj. kr. og umfang flutnings málefna mannvirkja nemur 616,4 millj. kr. sem færast á milli ráðuneyta en fellur undir óbreytt málefnasvið og málaflokk, þ.e. 17.50 Stjórnsýsla umhverfismála.

Um er að ræða breytingartillögur við sundurliðun 2 í frumvarpinu en þær hafa ekki áhrif á heildarafkomu ríkissjóðs.

Í þriðja lagi er um að ræða innleiðingu markaðsleigu fyrir fasteignir í eigu ríkisins. Gerðar eru tillögur um millifærslur vegna breytinga á reikningsskilum og umsýslu fasteigna í eigu ríkisins. Fasteignir eru nú eignfærðar og afskrifaðar á endingartíma sínum í stað þess að gjaldfærast að fullu á kaup- eða byggingarári. Á undanförnum árum hefur verið unnið að því að færa margar fasteignir til umsýslustofnunarinnar Ríkiseigna, sem núna er með rúmlega helming allra fasteigna ríkisins og flestar jarðeignir í umsjón sinni. Stofnunin innheimtir húsaleigu af ríkisaðilum sem ætlað er að standa undir almennu viðhaldi og greiðslu fasteignagjalda, trygginga og opinberra gjalda. Leigan er mun lægri en sú sem greidd er fyrir sambærilegt húsnæði á almennum markaði þar sem ekki er tekið tillit til fjármagnskostnaðar vegna fjárbindingar í húsnæðinu.

Þetta fyrirkomulag hefur í för með sér að rekstrarkostnaður stofnana sem leigja af Ríkiseignum er ekki sambærilegur við kostnað þeirra sem leigja á almennum markaði. Það getur leitt til þess að hvati til þess að hagræða í húsnæðismálum einstakra stofnana verður minni en ella. Fram til þessa hefur verið mjög lítill hvati fyrir forstöðumenn að færa starfsemi yfir á ódýrara markaðssvæði eða draga úr stærð húsnæðis. Samræming á leigugreiðslum, óháð því hvort starfsemin er rekin í húsnæði ríkisins eða húsnæði í eigu einkaaðila, er liður í viðleitni til að bæta úr þessu.

Fyrir nær alla ríkisaðila sem nú leigja húsnæði sitt hjá Ríkiseignum er um umtalsverða hækkun leigu að ræða, að meðaltali úr um 900 kr. á fermetra á mánuði í um 1.700 kr. Gerðar eru tillögur til breytinga á fjárheimildum fjölmargra málefnaflokka til að bæta ríkisaðilum hækkunina á leigunni.

Breytt fyrirkomulag tekur til fasteigna í umsjón Ríkiseigna, þ.e. rúmlega helmings allra fasteigna ríkissjóðs. Áætlað er að sams konar breyting komi til framkvæmda gagnvart öðrum fasteignum ríkisins í síðari áfanga verkefnisins. Lengri tíma þarf í síðari áfanganum, enda er það eignasafn talsvert sérhæfðara og almennt í umsjón umfangsmikilla ríkisaðila, svo sem Landspítalans, Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri og fasteigna Stjórnarráðsins.

Tillagan nær til fyrsta áfanga verkefnisins og felur í sér hækkun fjárheimildar málaflokka um samtals 4.802,1 millj. kr. Samhliða hækka tekjur Ríkiseigna þannig að tillagan hefur engin áhrif á afkomu ríkissjóðs í 1. gr. frumvarpsins. Áformað er að auknar tekjur Ríkiseigna vegna markaðsleigu renni til ríkissjóðs sem fjármagnskostnaður á grundvelli sérstaks skuldabréfs sem gefið verður út í tengslum við þessar breytingar.

Í yfirliti 3 er sundurliðun á hækkun fjárheimilda vegna hækkunar húsaleigu fyrir alla þá ríkisaðila sem breytingin tekur til. Samtals nemur heildarhækkun gjaldaheimilda 4.802,1 millj. kr. en heildaráhrif á afkomu ríkissjóðs eru engin vegna hækkunar tekna Ríkiseigna sem skilað er í ríkissjóð.

Millifærslur og leiðréttingar á hagrænni skiptingu málefnasviða og málaflokka er að finna í yfirliti 4 þar sem fram koma leiðréttingar á svokallaðri hagrænni skiptingu málefnasviða og málaflokka. Þar á meðal eru leiðréttingar á tillögum við 2. umr. og breyttar forsendur og leiðréttingar á sértekjum heilbrigðisstofnana vegna nýs greiðsluþátttökukerfis. Samtals hækka rekstrarframlög um 826,9 millj. kr., rekstrartilfærslur lækka um 306,2 millj. kr., fjármagnstilfærslur lækka um 30,7 millj. kr. og fjárfestingarframlög lækka um 284,6 millj. kr. Loks hækka rekstrartekjur um 205,4 millj. kr. þannig að nettó eru engin áhrif á afkomu ríkissjóðs.

Virðulegur forseti. Ég ætla nú að víkja að málefnum Íslandspósts og tillögu um viðbót við 5. gr., sem er ýmis ákvæði um lántökur, endurlán og ríkisábyrgðir, og 6. gr. frumvarpsins, um ýmsar heimildir.

Undir lok vinnu fjárlaganefndar fyrir 2. umr. kom fram tillaga um að heimila fjármála- og efnahagsráðherra að leggja Íslandspósti ohf. til lánsheimild og hlutafé. Ekki gafst tími til að greina upplýsingar um stöðu félagsins og því ákvað nefndin að kanna málið frekar og ítarlegar og gera ekki tillögu fyrr en við 3. umr., bæði gat nefndin þá skoðað og leitað skýringa með þeim gögnum sem þegar lágu fyrir og aflað frekari gagna, eins og gert var.

Markaðsaðstæður Íslandspósts hafa breyst hratt á undanförnum misserum og sú þróun sem við höfum séð heldur áfram og póstmarkaðir breytast ört. Hefðbundin póstfyrirtæki á Norðurlöndum eru enn í ríkiseigu. Félögin glíma öll við sambærilega þróun á póstmarkaði sem einkennist af mikilli fækkun almennra bréfa og auknum kostnaði vegna alþjónustu sem er umfram hækkanir á gjaldskrá. Meiri hlutinn undirstrikar að póstþjónusta er einn af grundvallarþáttum samfélagsins og mikilvægt að þjónustan sé skilvirk um allt land.

Ísland er strjálbýlt, vegalengdir miklar og samgöngur oft erfiðar. Við yfirferð málsins kom skýrt fram að hefðbundnar leiðir við að mæta hallarekstri vegna alþjónustu, þ.e. hækkun á verði fyrir bréf og hagræðing í dreifikerfi, einkum á landsbyggðinni, duga einar og sér ekki lengur til að standa undir allri alþjónustubyrðinni eins og alþjónustan er skilgreind.

Meiri hlutinn bendir jafnframt á að alþjónustuskyldan liggur tæknilega séð hjá ríkinu en ekki hjá Íslandspósti. Félaginu hefur aftur á móti verið falið að framkvæma hana, m.a. á grundvelli tekna innan einkaréttar, þ.e. af bréfum undir 50 g. Þrátt fyrir að Póst- og fjarskiptastofnun hafi samþykkt gjaldskrárhækkanir hafa þær ekki dugað til að vega upp á móti magnminnkun bréfa í einkarétti umfram áætlanir og auknum fjölda erlendra póstsendinga innan alþjónustu sem hafa haft neikvæð áhrif á afkomu og lausafjárstöðu Íslandspósts.

Þótt bréfapóstur hafi dregist saman á öllum Norðurlöndum hafa verið farnar mismunandi leiðir að því marki að tryggja dreifingu pósts. Sérstaklega hefur tímasetning aðgerða verið breytileg milli landa. Í Danmörku brugðust stjórnvöld ekki við fyrr en fjárhagsstaðan var orðin verulega slæm. Það leiddi til enn frekari þarfar á endurskipulagningu og hárra fjárveitinga frá ríkinu. Aftur á móti virðast stjórnvöld í Noregi og Finnlandi hafa gripið fyrr til aðgerða. Í því getur falist ákveðinn lærdómur fyrir íslensk stjórnvöld, sú ábyrgð að bregðast við fyrr en seinna.

Þá eru það aðgerðir og tillögur meiri hlutans eftir skoðun fjárlaganefndar og eftir að hafa fundað með fagráðuneyti póstmála, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, með fjármála- og efnahagsráðuneytinu, sem fer með eignarhlut ríkisins, sem og með stjórnendum Íslandspósts. Nefndin hefur einnig kannað að lánveiting á markaðsvöxtum stangast ekki á við ríkisaðstoðarreglur sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur eftirlit með.

Nefndin kallaði eftir svörum við spurningum sínum um kjör og endurgreiðslur lána, hagræðingaraðgerðir og framtíðarsýn félagsins.

Nefndin sendi stjórn Íslandspósts eftirfarandi:

Hver er rökstuðningur fyrir lánsfjárhæðinni, og hvernig er ætlunin að nýta lánið?

Hvenær og hvernig hyggst félagið endurgreiða lánið?

Yfirlit um þær hagræðingaraðgerðir sem stjórnin hefur samþykkt á síðastliðnum mánuðum í því skyni að auka rekstrarhæfi og ná fram fjárhagslegri endurskipulagningu á félaginu.

Hver er framtíðarsýn stjórnar varðandi það að uppfylla alþjónustukvöð póstdreifingar eftir að einkarétturinn hefur verið afnuminn eins og nú er fyrirhugað?

Í svörum stjórnarinnar kemur fram að stjórn félagsins hyggist grípa til margvíslegra ráðstafana til þess að tryggja megi rekstrargrundvöll félagsins til framtíðar. Þegar hefur verið skipaður aðgerðahópur sem hefur það hlutverk að koma með tillögur til endurskipulagningar á starfsemi félagsins. Í því felst m.a. að leggja kosti fyrir eigandann um starfsemi, rekstrarform og framtíðarskipan póstmála með tilliti til hlutverks Íslandspósts.

Það er, virðulegi forseti, mikilvægt að þingið, bæði hv. umhverfis- og samgöngunefnd sem og hv. fjárlaganefnd, verði upplýst um framvindu mála, þær aðgerðir og kosti sem lagðir verða fyrir.

Enn fremur kemur fram að félagið er að öllu óbreyttu ekki rekstrarhæft til framtíðar og geti ekki óstutt staðið undir skuldbindingum sínum. Til greina kemur að draga úr þjónustu og lækka kostnað. Stjórn Íslandspósts hyggst endurgreiða lán ríkissjóðs með greiðslu framlags úr jöfnunarsjóði alþjónustu sem sótt hefur verið um vegna ófjármagnaðrar alþjónustubyrðar á árunum 2013–2017. Póst- og fjarskiptastofnun hefur þá kröfu til skoðunar en sjóðurinn stendur engan veginn undir kröfu félagsins. Það liggur ljóst fyrir.

Fram kemur að á undanförnum árum hefur verið ráðist í ýmsar breytingar og aðgerðir til hagræðingar í rekstri og rakin fjölmörg dæmi þar um. Unnið er að frekari aðgerðum til að greina og styrkja reksturinn. Fjárfestingar, fjárfestingaráætlanir og þættir sem fela í sér verulegan breytilegan kostnað eru til endurskoðunar með hliðsjón af skuldbindingum, þróun verkefna og stöðu félagsins með sparnað og hagræðingu í huga. Stjórnin mun senda nefndinni yfirlit yfir allar fjárfestingar frá árinu 2008. Einnig kemur fram að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er ljóst að ákveðnir hlutar alþjónustunnar verða ekki reknir með hagnaði. Stjórnin telur að leiðrétta þurfi rekstrargrunn Íslandspósts og afgreiða slíka tekjuöflun með þjónustusamningi.

Í svari fjármála- og efnahagsráðuneytisins kemur m.a. fram að unnið sé að því að á fyrri hluta næsta árs liggi fyrir skýrari sýn á framtíðina, fyrirkomulag póstþjónustu og hlutverk Íslandspósts á þeim markaði.

Meiri hlutinn beinir því til stjórnar og eiganda að marka fyrirtækinu skýra stefnu og endurmeta þannig mögulega stöðu þess á póstmarkaði með það fyrir augum að draga jafnvel úr þátttöku félagsins á virkum samkeppnismörkuðum utan kjarnastarfsemi félagsins. Ekki má stuðla að því að ríkið sitji uppi með óþarflega háa og mögulega vaxandi byrði vegna niðurgreiðslu póstþjónustu.

Helstu álitaefnin eru að mati meiri hlutans að nú þegar hefðu átt að liggja fyrir upplýsingar um sviðsmyndir um framtíðarhlutverk félagsins, greinargóðar upplýsingar um einstaka starfsemisþætti og yfirlit um hagræðingaraðgerðir og framtíðarsýn.

Meiri hlutinn telur brýna nauðsyn á að endurskoða lög um póstþjónustu og fyrir Alþingi í hv. umhverfis- og samgöngunefnd er nú til umfjöllunar frumvarp til nýrra heildarlaga um póstþjónustu. Meta þarf hvort ýmis ákvæði frumvarpsins til laga um póstþjónustu geti tekið fyrr gildi eða sem fyrst gildi til að létta reksturinn, þ.e. lækka kostnað og auka tekjur. Er þar ekki síst horft til eðlilegrar gjaldtöku vegna erlendra pakkasendinga sem að óbreyttu valda félaginu verulegum kostnaði þar sem tekjur standa ekki undir raunkostnaði.

Enn fremur metur meiri hlutinn þörf á að skilgreina umfang alþjónustu innan ramma Evrópuregluverksins sem allra fyrst. Fljótlega þarf að taka afstöðu til og útfæra þær leiðir til fjármögnunar sem fjallað er um í nýja póstfrumvarpinu en gildistaka þess, verði það samþykkt, er 1. janúar 2020. Það ríkisframlag sem hér er til umræðu á að tryggja rekstur félagsins út árið 2019 eða fram að gildistöku nýrra póstlaga.

Meiri hlutinn setur enn fremur þau skilyrði, reyni á lánsheimildina, að ráðherrum beri að upplýsa bæði fjárlaganefnd og umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis um framgang fjárhagslegrar endurskipulagningar og útfærslu á framtíðarrekstrarfyrirkomulagi áður en nýttar eru þær lána- og framlagsheimildir sem hér er gerð tillaga um.

Gerð er tillaga um að við 2. tölulið 5. gr. bætist nýr liður um að endurlána allt að 1.500 millj. kr. til Íslandspósts. Einnig er gerð tillaga um að við 6. gr. bætist nýr liður um að leggja Íslandspósti til aukið eigið fé vegna fyrirliggjandi lausafjárvanda félagsins.

Nú ætla ég að víkja að öðrum atriðum og breytingartillögum meiri hlutans en fyrst vil ég segja að fram kom í umsögnum við frumvarpið fyrir 2. umr. beiðni frá VIRK Starfsendurhæfingarsjóði um framlag en þar kemur í raun og veru fram ágreiningur eftir að við í hv. fjárlaganefnd fórum að grafast fyrir um af hverju vantaði upp á. Ágreiningurinn grundvallast á gjaldstofni tryggingagjalds og samkomulagi sem gert var. Nefndin hefur kallað eftir afstöðu ráðuneyta vegna fjárbeiðni frá VIRK Starfsendurhæfingarsjóði. Ágreiningur er um lagatúlkun sem felst í þjónustusamningi við VIRK sem og mismunandi lagatúlkun á því hvaða gjaldstofn tryggingagjalds skuli miða við þegar framlögin eru reiknuð út. Meiri hlutinn gerir ekki breytingartillögu um þetta mál að þessu sinni en leggur áherslu á að aðilar málsins nái samkomulagi um þetta sem fyrst.

Þá eru aðrar breytingartillögur sem koma fram í áliti meiri hlutans. Gerð er tillaga um 4 millj. kr. framlag til umboðsmanns Alþingis til að tryggja framkvæmd svokallaðs OPCAT-verkefnis, sem er bókun við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum. Umboðsmaður Alþingis mun taka að sér verkefnið hérlendis og tillagan tryggir að framkvæmd þess komi ekki niður á öðrum verkefnum embættisins.

Þá er gerð tillaga um 30 millj. kr. tímabundið framlag til Byggðastofnunar. Tillagan er gerð í kjölfar umræðu um stöðu minkaræktar en mikil verðlækkun á mörkuðum á síðastliðnum árum auk sterks gengis íslensku krónunnar hefur valdið algjörum umskiptum í rekstri minkabænda til hins verra. Lagt er til að ráðherrar byggðamála og landbúnaðarmála hafi forystu um frekari greiningu á framtíð loðdýraræktar og leggi fram tillögur í málinu innan núverandi fjárheimilda þeirra auk þessa tímabundna framlags til eins árs. Jafnframt er mælst til þess að fjárlaganefnd og atvinnuveganefnd verði kynntar aðgerðir ráðuneyta vegna loðdýraræktar áður en til greiðslu framlagsins kemur.

Gerð er tillaga um 50 millj. kr. tímabundið framlag til Sjúkrahússins á Akureyri og framlengja þannig sambærilegt framlag sem meiri hlutinn gerði tillögu um við 2. umr. fyrir ári síðan. Meiri hlutinn væntir þess að hæstv. heilbrigðisráðherra nýti útgjaldasvigrúm vegna fjárlagagerðar 2020 til þess að taka afstöðu til þess hvort gera skuli framlagið ótímabundið.

Þá er gerð tillaga um 30 millj. kr. tímabundið framlag til Hugarafls, samtaka um geðheilbrigði. Framlaginu er ætlað að stuðla að víðtækum og öflugum úrræðum í geðheilbrigðismálum með því að gera samtökunum kleift að halda opnu úrræði fyrir geðfatlaða og aðstandendur þeirra sem þangað leita og efla bataferli í geðheilbrigðismálum og stuðla að virkari þátttöku á vinnumarkaði. Meiri hlutinn væntir þess að ráðherra félagsmála leggi mat á starfsemina og taki afstöðu til þess hvort gera skuli rekstrarsamning við samtökin eða falla frá framtíðarfjárveitingum.

Gerð er tillaga um 18 millj. kr. hækkun til Lýðheilsusjóðs til að efla sjóðinn enn frekar en gert er í frumvarpinu.

Gerð er tillaga um 45 millj. kr. tímabundið framlag til að mæta kostnaði vegna innleiðingar jafnlaunavottunar. Þar munar mest um 36 millj. kr. til að þróa hugbúnað fyrir starfaflokkun og launagreiningu. Fjármagnið nýtist til þess að greiða fyrir þróun hugbúnaðar fyrir opinbera og almenna vinnumarkaðinn og auk þess til að greiða 4 millj. kr. árlega fyrir notkun hugbúnaðar Staðlaráðs Íslands sem tryggir almennt aðgengi að staðlinum. Að auki verður fjármagn nýtt til að greiða fyrir ráðgjöf til að endurgera verkfærakistu jafnlaunavottunar á vefsíðu Stjórnarráðsins.

Í öðru lagi er um að ræða viðbót vegna verkefnis í framkvæmdaáætlun, 7 millj. kr., til að greiða fyrir launarannsókn í samstarfi við Hagstofu Íslands, fjármögnun endurskoðunar jafnlaunastaðalsins, almenna kynningu á jafnlaunavottun, til að fjármagna árlegan jafnlaunadag o.s.frv. Þá þarf að greiða fyrir ráðgjöf vegna verkefnis sjö sem snýr að endurskoðun jafnréttislaga.

Í þriðja lagi er um að ræða námskeið fyrir vottunaraðila og er það framlag 2 millj. kr.

Þá er gerð tillaga um 20 millj. kr. tímabundið framlag til að styrkja rekstur Ljóssins, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöðvar fyrir krabbameinsgreinda, til viðbótar við 30 millj. kr. tímabundið framlag sem samþykkt var við 2. umræðu. Framlaginu er ætlað að tryggja að miðstöðin geti áfram sinnt því þverfaglega endurhæfingarhlutverki sem hún, sem hluti af heilbrigðiskerfinu, hefur sinnt í síauknum mæli. Meiri hlutinn væntir þess að heilbrigðisráðherra leggi mat á starfsemina og taki afstöðu til þess hvort gera skuli varanlegan rekstrarsamning við samtökin eða falla frá framtíðarfjárveitingum.

Ég hef þá gert ítarlega grein fyrir öllu því sem fram kemur í áliti meiri hluta hv. fjárlaganefndar. Ég vil í lok ræðu minnar, virðulegi forseti, þakka allri nefndinni, hv. fjárlaganefnd, fyrir sérstaklega góða vinnu við umfjöllun málsins og jafnframt, af því að við erum komin að lokum þessarar vinnu og við í hv. fjárlaganefnd þurfum góðan stuðning frá öflugum riturum nefndarinnar, vil ég þakka þeim sérstaklega fyrir aðstoð og stuðning við nefndina í gegnum þessa vinnu sem endranær.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er grein fyrir í þessu nefndaráliti, auk þeirrar tillögu sem meiri hlutinn hyggst leggja fram til að mæta skerðingum í Rannsóknasjóð, eins og ég fór yfir í upphafi ræðu minnar.

Undir meirihlutaálitið rita eftirtaldir hv. þingmenn og gera það á Alþingi 3. desember sl.: Willum Þór Þórsson, Haraldur Benediktsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Njáll Trausti Friðbertsson og Páll Magnússon.