149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:15]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er gott að fá loforð um að þetta verði ekki skert. Mig langar til að fjalla aðeins um það sem meiri hlutinn gerði við 2. umr. þar sem þessi málaflokkur var skertur til að gera almennar ráðstafanir til að draga úr útgjaldavexti.

Ég vil leita álits hv. formanns varðandi nákvæmlega þetta orðalag frá fjárlaganefnd. Þegar niðurstaðan verður síðan sú að öll sú fjárhæð sem dregin var frá fer niður á einn málalið, rannsóknasjóðinn, er það í alvörunni almenn aðgerð til að draga úr útgjaldavexti? Sérstaklega þegar þessi málaflokkur og rannsóknasjóðurinn var skertur um 35 milljónir hvort eð er í fjárlagafrumvarpinu sem slíku og þar af leiðandi enginn útgjaldavöxtur þar til að hafa hömlur á? Eru skilaboðin frá fjárlaganefnd um almennar ráðstafanir til að draga úr útgjaldavexti ekki rangt túlkaðar af ráðherra ef þær eiga að fara í nákvæmlega þetta eins og þær áttu að gera?