149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:20]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta svar er ekki nægilega gott. Það erum við hér í þessum sal sem erum fjárveitingavaldið. Það erum við hér sem samþykkjum þá upphæð sem ráðherra fær að spila úr. Síðan er það svo að á þessum breyttu tímum sem við lifum núna þá verðum við að nýta hugvitið, efla tækniþekkingu, nýsköpun og rannsóknir og við verðum að horfa á menntakerfið með öðrum hætti en við höfum gert.

Hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hefur mörgum sinnum síðan hún tók við talað um stórsókn í menntamálum og talað á þessum nótum, að við þurfum á breyttum tímum að horfa á menntakerfið með öðrum hætti. Það hefur hæstv. forsætisráðherra líka talað um hér og sett sérstaka framtíðarnefnd á laggirnar til að skoða hvernig við getum nýtt hugvitið, vísindin og tæknina til að mæta áskorunum sem tæknibyltingin nýja krefur okkur um. Ég vil bara spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála mér að orð og athafnir fara ekki saman. Við getum ekki gert þetta ef við ætlum síðan að skera niður til málaflokksins.