149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:28]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni og formanni fjárlaganefndar yfirferðina. Það kemur fram í greinargerð meiri hlutans fyrir 3. umr. að á fund nefndarinnar milli 2. og 3. umr. komu fulltrúar Öryrkjabandalagsins sem gleymst hafði að boða á fund nefndarinnar á fyrri stigum málsins. Þar komu fram margar mjög gagnlegar upplýsingar fyrir nefndina varðandi stöðu þessa hóps, varðandi áform um breytingar á örorkulífeyriskerfinu, hvaða áhrif þessi lækkun framlags um 1.100 millj. kr. á næsta ári í málaflokkinn hefði, ekki hvað síst varðandi kaupmáttarþróun þessa hóps.

Við horfum á það gerast þessa dagana að verðbólga bæði þessa árs og næsta árs stefnir í að verða umtalsvert meiri en áður var gert ráð fyrir. Kaupmáttarrýrnun þessa hóps á næsta ári verður þar af leiðandi talsvert meiri en gert var ráð fyrir, jafnvel við í 2. umr. málsins.

Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann: (Forseti hringir.) Hvernig í ósköpunum stendur á því að meiri hluti fjárlaganefndar gerði ekkert til að breyta (Forseti hringir.) stöðu hópsins, var ekki með neinar breytingartillögur milli umræðna? (Forseti hringir.) Til hvers vorum við að boða fulltrúa Öryrkjabandalagsins á fund nefndarinnar ef ekki stóð til að gera neitt?