149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:29]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst vil ég segja það varðandi umsögn frá Öryrkjabandalaginu að ég bað forráðamenn Öryrkjabandalagsins afsökunar á því að hafa ekki sent formlega eftir beiðni sem varð til þess að umsögn frá Öryrkjabandalaginu kom seint, sem var miður. Við buðum þeim að koma sem þeir þáðu, sem er gott vegna þess að ég tek undir með hv. þingmanni, og þakka honum fyrirspurnina svo ég geti komið þessu að, að þar var að finna mjög gagnlegar upplýsingar og mjög ítarlega umsögn. Nú er það svo með allar slíkar umsagnir sem eru mjög gagnlegar fyrir nefndina í allri umfjöllun og nýtist vel, að þetta samtal þarf auðvitað að vera gegnumgangandi þó að við bregðumst ekki við öllum kröfum sem fram koma.

Ég er alveg sammála hv. þingmanni með það að því miður hefur ekki tekist að bæta kjör þessa hóps þó að við höfum hækkað framlög til málaflokksins um gífurlegar fjárhæðir og það er auðvitað okkar sameiginlega verkefni að bæta þar úr. Það er í raun og veru bara ömurlegt að horfast í augu við það.