149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:31]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég tek undir orð hv. þingmanns. Þetta er ömurlegt að horfa upp á og mér þótti mjög miður að sjá að um málefni öryrkja í þessari stöðu var ekki eytt einu orði í nefndarálitinu annað en að fulltrúar þeirra hefðu mætt á fund nefndarinnar. En það er annað sem ég velti fyrir mér líka þegar við erum að fara inn í lokaumræðu um fjárlög. Það liggur fyrir að verðbólga á þessu ári verður talsvert meiri en gert var ráð fyrir, jafnvel í uppfærðri þjóðhagsspá bara síðast í nóvember. Verðbólguhorfur á næsta ári eru öllu verri en gert var ráð fyrir. Með það fyrir augum hefði maður búist við ákveðinni varfærni af hálfu fjárlaganefndar. Á sama tíma erum við í raun og veru að setja mjög hættulegt fordæmi þar sem fjárlaganefnd jók útgjöld um 700 millj. kr. milli 1. og 2. umr. og hér er bætt við 200 millj. kr. til viðbótar sem er í raun og veru umfram afkomumarkmið í fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar. Við stöndum hér með milljarð umfram í útgjöld, umfram (Forseti hringir.) afkomumarkmið ríkisstjórnarinnar. Óttast formaður fjárlaganefndar, af því að þetta er gert á vakt (Forseti hringir.) fjárlaganefndar sjálfrar, ekki að við séum að setja hættulegt fordæmi með því að fara ekki að fjármálastefnu stjórnarinnar?