149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:34]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Þrátt fyrir mikla gagnrýni tekur fjárlagafrumvarpið sáralitlum breytingum á milli umræðna. Enn stendur meiri hlutinn við áform sín um að lækka fyrirhugaða fjármuni til öryrkja frá því sem var boðað þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram fyrir einungis rúmum tveimur mánuðum. Enn þurfa hjúkrunarheimili að búa við óviðunandi rekstrarskilyrði og sama má segja um heilbrigðisstofnanir úti á landi. Ekki er staðið við fyrirheit um stórsókn í menntamálum og enn stendur til að lækka heildarfjárframlög til framhaldsskóla á milli ára. Þá stendur enn þá til að auka skerðingar barnabóta hjá millitekjuhópum og lægri upphæð á að renna til vaxtabóta á næsta ári en til stóð á yfirstandandi ári. Aldraðir þurfa enn að bíða eftir sínum kjarabótum og sjúkrahúsþjónusta þarf meiri fjármuni til að mæta þeim markmiðum sem stjórnvöld hafa sett sér í þann málaflokk. Einn mikilvægasti málaflokkur opinberra fjármála sem kallast húsnæðisstuðningur stendur nánast í stað á milli ára og þá er almenn löggæsla og samgöngumál enn í talsverðri fjárþörf.

Fyrsti minni hluti fjárlaganefndar vill vekja athygli á tveimur nýjum ályktunum sem hafa borist síðan 2. umr. um fjárlagafrumvarpið lauk.

Hinn 30. nóvember síðastliðinn sendi miðstjórn Alþýðusambands Íslands frá sér eftirfarandi áskorun til stjórnvalda, með leyfi forseta:

„Alþýðusamband Íslands skorar á stjórnvöld að hraða allri vinnu er lýtur að kröfum verkalýðshreyfingarinnar í komandi kjaraviðræðum. Ef aðgerða- og skilningsleysið sem hefur einkennt viðbrögð stjórnvalda heldur áfram er ljóst að erfitt mun reynast fyrir aðila vinnumarkaðarins að ganga frá nýjum kjarasamningi. Það er aðeins rétt rúmur mánuður þangað til kjarasamningar renna út. Stjórnvöld hafa ekki lagt neitt handfast fram til lausnar þeim gríðarlega vanda sem blasir við í húsnæðismálum. Þá vantar tillögur í skattamálum sem eru þó lykillinn að kröfum um aukinn jöfnuð.

Það hefur verið ljóst árum saman að gera þarf þjóðarátak í húsnæðismálum. Fjöldi fólks er fastur í viðjum okurleigu, húsnæðisóöryggis, það getur ekki keypt og margir búa við óviðunandi aðstæður. Þessi staða er m.a. tilkomin vegna aðgerðaleysis stjórnvalda og sveitarstjórna og hefur verkalýðshreyfingin þó í langan tíma bent á vandann. Það er orðið sjálfstætt úrlausnarefni að laga húsnæðismarkaðinn, enda liggur fyrir að þær kjarabætur sem samið hefur verið um síðustu ár hafa brunnið upp á báli húsnæðiskostnaðar. Það þarf róttækar breytingar á kerfinu þannig að hagsmunir launafólks og heimila verði teknir fram yfir hagsmuni fjármagnseigenda. Breyting á skattkerfinu er mikilvægur áfangi á þeirri vegferð að vinda ofan af þeirri stóru skattatilfærslu sem orðið hefur síðustu ár þar sem láglaunahópar hafa verið látnir borga reikninginn fyrir ríkasta hluta þjóðarinnar. Hér þarf breytta forgangsröð. Það er kominn tími til að hagsmunir lág- og millitekjufólks verði hafðir að leiðarljósi með breytingum á skattkerfinu og hækkun á barna- og vaxtabótakerfinu.“

Þetta er, frú forseti, ályktun eða umsögn frá miðstjórn Alþýðusambands Íslands sem fjárlaganefnd barst núna á milli umræðna. Þarna er ákaflega skýrt talað um stöðu mála og við í Samfylkingunni getum tekið undir hvert orð og við höfum lagt fram tillögur sem myndu mæta mörgu af því sem Alþýðusamband Íslands nefnir þarna.

Fyrsti minni hluti vill einnig vekja athygli á annarri umsögn. Hinn 19. nóvember sendi Öryrkjabandalag Íslands frá sér eftirfarandi ályktun, með leyfi forseta:

„Fjármálaráðherra og meiri hluti fjárlaganefndar leggja til við Alþingi að lög um almannatryggingar verði brotin við afgreiðslu fjárlaga.

Í fjárlagafrumvarpi 2019 leggur fjármálaráðuneytið fram nýja túlkun á ákvæði 69. gr. almannatryggingalaga. Í frumvarpinu segir um bætur almannatrygginga:

„Hækkun bótanna tekur mið af spá Hagstofu Íslands um þróun vísitölu neysluverðs að viðbættri 0,5% kaupmáttaraukningu. Það er sama forsenda og gildir um launahækkanir í frumvarpinu …“

Það er rangt að það sé sama forsenda og gildir um launahækkanir í frumvarpinu. Frumvarpið byggir eins og fjárlagafrumvörp hingað til á þjóðhagsspá Hagstofu Íslands en samkvæmt henni er áætluð hækkun launavísitölu 6% og má sjá þá forsendu fjárlagafrumvarpsins í frumvarpinu þar sem kemur skýrt fram að gert er ráð fyrir 6% nafnhækkun launa: „Þá er gert ráð fyrir að nafnlaun hækki um 6% á næsta ári …“ Þá kemur einnig fram að gert er ráð fyrir því að kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann vaxi um 2,7%. Þrátt fyrir þetta leggur fjármálaráðherra til við Alþingi að það samþykki 0,5% kaupmáttaraukningu lífeyrisþega, að því gefnu að verðbólga fari ekki yfir 2,9%.

Ákvæði 69. gr. laga um almannatryggingar var lögfest með 10. gr. laga nr. 130/1997. Í greinargerð með frumvarpinu segir í skýringum við ákvæðið: „Jafnframt er eðlilegt að fjárhæð bótanna verði ákveðin á fjárlögum hverju sinni, enda byggist viðmiðun þeirra á sömu forsendum og fjárlög um almenna þróun launa og verðlags á fjárlagaárinu.“

Í ræðu Davíðs Oddssonar, þáverandi forsætisráðherra, 9. desember 1997 sagði hann við innleiðingu ákvæðisins: „Lásinn er tvöfaldur. [...] Það á ekki að láta nægja að miða við neysluvísitöluna. Það á jafnframt að gæta þess að huga sérstaklega að og hafa viðmiðun á launaþróuninni og þá auðvitað er bara hægt að gera það þegar launaþróunin er vænlegri kostur en vísitala neysluverðs.“

Við fjárlög 2019 er launaþróunin vænlegri kostur en vísitala neysluverðs, en samt er ætlun ríkisstjórnarinnar og meiri hluta fjárlaganefndar að miða einungis við neysluverðsvísitöluna við ákvörðun um hækkun lífeyris almannatrygginga. Í áliti meiri hlutans er gert ráð fyrir að bætur almannatrygginga og atvinnuleysisbætur hækki um 3,6% í stað 3,4% sem er í takt við verðbólguspá næsta árs.

Verðbólguspáin hefur hækkað í 3,6% og á hækkun lífeyris almannatrygginga einungis að vera í samræmi við verðbólguspá, sem hækkaði úr 2,9% í 3,6% frá júní til nóvember.

Hvers vegna er gengið fram hjá áætlaðri 6% hækkun launavísitölu?

Hvað varð um 0,5% kaupmáttaraukningu og hvað gerist ef verðbólga verður enn meiri?“

Tilvitnun lýkur í umsögn Öryrkjabandalags Íslands. Og þessi spurning er hér og henni er ekki svarað.

Við 2. umr. um fjárlagafrumvarpið lagði 1. minni hluti fram breytingartillögur upp á um 24 milljarða kr. sem væri hægt að öllu leyti að fjármagna með breyttum tekjuúrræðum. Þessar tillögur og hugmyndir hefðu gert ráð fyrir hærri afgangi á ríkissjóði á næsta ári en ríkisstjórnarflokkarnir gera ráð fyrir í þessu fjárlagafrumvarpi. Því miður voru allar breytingartillögur Samfylkingarinnar og í reynd allra annarra stjórnarandstöðuflokka felldar við 2. umr.

Nú við 3. umr. leggur 1. minni hluti aftur fram nokkrar breytingartillögur sem allar líta til framtíðar. Kostnaður við þessar breytingartillögur er um 4 milljarðar kr. sem er sama upphæð og stendur til að lækka veiðileyfagjöldin um milli ára. Því væri hægt að fjármagna þær allar með því að hafa óbreytt veiðileyfagjöld á næsta ári.

Ég vil minna á að frumvarpið um veiðigjöld hefur ekki verið samþykkt endanlega, það á eftir að koma aftur inn í þingsal við 3. umr. og við getum ákveðið að vísa því frá, taka okkur eitt ár eða svo til að ná meiri sátt um veiðigjaldsmálið og á árinu 2019 að nýta þá rúmu 4 milljarða sem skapast myndu í ríkissjóði bara fyrir þessa einu ákvörðun í það sem við leggjum hér til.

1. Við leggjum til að framlag til öryrkja (málefnasvið 27 Örorka og málefni fatlaðs fólks) hækki um 1 milljarð kr.

2. Stofnframlög til almennra íbúða (málefnasvið 31 Húsnæðisstuðningur) hækki um 1 milljarð kr.

3. Barnabætur (málefnasvið 29 Fjölskyldusvið) hækki um 500 millj. kr.

4. Háskólar (málefnasvið 21 Háskólastig), framlag hækki um 500 millj. kr.

5. Heilbrigðisþjónusta úti á landi, almenn sjúkrahúsþjónusta (málefnasvið 23 Sjúkrahúsþjónusta), framlag hækki um 500 millj. kr.

6. Hjúkrunarheimili (málefnasvið 25 Hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta), framlag hækki um 400 millj. kr.

7. Skattrannsóknarstjóri (málefnasvið 5 Skatta-, eigna- og fjármálasýsla), framlag hækki um 100 millj. kr. til að fylgja eftir rannsókn á Panama-skjölunum, skattaskjólum og skattsvikum vegna peningaþvættis.

8. Framlög til Rannsóknasjóðs Vísinda- og tækniráðs hækki um 147 millj. kr.

Í breytingartillögunni gerum við ráð fyrir að 147 millj. kr. komi aftur inn þrátt fyrir þetta möndl sem hv. þingmaður, formaður fjárlaganefndar, fór yfir fyrr í þessari umræðu.

Ég vil, frú forseti, fá að lesa hér yfirlýsingu nemendafélaga vegna niðurskurðar til Rannsóknasjóðs. Það nægir mér ekki að formaður fjárlaganefndar standi hér í þessum ræðustól og segi: Við ætlum að endurskoða aðhaldskröfuna og það er hæstv. menntamálaráðherra sem ætlar að endurskoða hagræðingarkröfuna og skera bara niður einhvers staðar annars staðar. Ég vil fá að vita hvar á að skera niður. Á að skera niður hjá framhaldsskólunum, háskólunum, í menningarmálum, safnamálum, íþrótta- og tómstundamálum? Hvar á að skera niður þessar rúmlega 100 millj. kr.? Við þurfum að fá að vita það, fjárveitingavaldið hér.

Frú forseti. Ég vil lesa upp bréf nemendafélaganna, með leyfi forseta, vegna niðurskurðar til Rannsóknasjóðs:

„Undirrituð lýsa yfir alvarlegum áhyggjum af fyrirhuguðum 147 milljóna króna niðurskurði til Rannsóknasjóðs í fjárlögum 2019. Í stóra samhengi fjárlaga hljómar þetta kannski ekki sem mikil fjárhæð en fyrir þá sem reiða sig á sjóðinn er um gríðarlegar fjárhæðir að ræða. Sé talan sett í samhengi við árslaun þá kemur í ljós að með þessari fjárhæð væri hægt að fjármagna tæp þrjátíu árslaun doktorsnema eða tuttugu og ein árslaun nýdoktora. Þetta er því mikið högg fyrir íslenskt fræðasamfélag sem reiðir sig í stórum stíl á þennan sjóð. Sérstaklega höfum við undirrituð áhyggjur af stöðu doktorsnema og nýrannsakenda verði af þessum niðurskurði en sá hópur byggir afkomu sína nær algjörlega á úthlutunum úr samkeppnissjóðum. Á seinustu árum hefur árangurshlutfall úr Rannsóknasjóði lækkað verulega, úr 29,6 prósentum árið 2015 í 18,4 prósent í ár, jafnvel þó að ekki hafi verið skorið niður til sjóðsins að ráði. Verði af fyrirhuguðum niðurskurði er ljóst að árangurshlutfallið mun lækka verulega í úthlutun ársins 2019.

Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar 2019–2023 segir:

„Fjármögnun doktorsnema er ótrygg og nýliðun akademískra starfsmanna víða ófullnægjandi. Þetta skapar hættu á að sú nýja þekking sem gjarnan fylgir ungum vísindamönnum skili sér illa inn í háskólana og að það dragi úr tengslum við erlent fræðasamfélag.“ — Þetta var tilvitnun í fjármálaáætlun. Og áfram með bréfið, með leyfi forseta:

„Undir þessi orð ríkisstjórnar taka undirrituð. Við teljum ljóst að fyrirhugaður niðurskurður muni hafa gríðarleg áhrif á doktorsnám í landinu þar sem brottfall mun að öllum líkindum aukast og nýliðun minnka. Möguleikar nýrannsakenda munu að sama skapi snarminnka sem mun valda atgervisflótta og veikja vísindarannsóknir og háskólana til langframa. Við skorum því á þingmenn að leiðrétta framlög til menntamála svo að unnt sé að veita nægileg framlög til rannsókna og vísinda við háskóla og fræðastofnanir á Íslandi.

Undir þessa yfirlýsingu rita:

Fedon – félag doktorsnema og nýrannsakenda við Háskóla Íslands, Stúdentaráð Háskóla Íslands, LÍS – Landssamtök íslenskra stúdenta, SÍNE – Samband íslenskra námsmanna erlendis, RUPA – félag doktorsnema við Háskólann í Reykjavík, Arkímedes – félag doktorsnema við Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands, DNR/HVS – doktorsnemaráð Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands, Félag doktorsnema á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, Hugdok – félag doktorsnema og nýrannsakenda við Hugvísindasvið Háskóla Íslands, Seigla: Félag doktorsnema á Félagsvísindasviði Háskóla Íslands, Nemendafélag Háskólans á Bifröst, Stúdentafélag Háskólans á Akureyri og Stúdentafélags Háskólans í Reykjavík.“

Frú forseti. Formaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Logi Einarsson, ræddi um þessi mál í störfum þingsins fyrr í dag og ég vil taka heils hugar undir orð hans. Heimurinn er á ofsahraða og áður en við vitum af verðum við í nýju umhverfi þar sem ný störf verða til og önnur breytast. Lykillinn að því að fóta sig í svo hverfulum heimi og byggja þetta nýja samfélag er að við nýtum hugvitið, eflum tækniþekkingu, nýsköpun og rannsóknir. Og ég held að flestir geri sér grein fyrir því að þetta þurfum við að gera eigum við að koma vel frá tæknibyltingunni sem við stöndum frammi fyrir. Við verðum að horfa á menntakerfið með allt öðrum hætti en við höfum gert. Við verðum að leggja áherslu á menntun og menntastofnanir og nýsköpun innan þeirra. Þess vegna er ég sammála áherslum sem fram koma í fjármálaáætluninni og samþykkt var í vor, en ekki er síðan fylgt eftir í helsta stefnuplaggi ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2019, sem er þetta fjárlagafrumvarp sem við ræðum nú í 3. umr.

Frú forseti. Í stað þess að líta til þeirra breytinga eða þeirra mála sem við í Samfylkingunni höfum lagt til og fulltrúi Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd hefur talað fyrir og lagt fram, þá tryggir fjárlagafrumvarpið því miður hvorki félagslegan né efnahagslegan stöðugleika. Það er dapurlegt. Ríkisstjórnin ætlar hvorki að ráðast í nauðsynlegar fjárfestingar í innviðum samfélagsins né í nauðsynlega tekjuöflun fyrir hið opinbera og þetta mun koma niður á velferðarkerfinu okkar allra.

Undir nefndarálitið frá 1. minni hluta fjárlaganefndar ritar hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson.