149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:53]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur prýðisræðu. Hún fór yfir tillögur Samfylkingar og 1. minni hluta fjárlaganefndar sem undir ritar hv. þingmaður og nefndarmaður í fjárlaganefnd, Ágúst Ólafur Ágústsson, sem vann fína vinnu í hv. fjárlaganefnd, svo það sé sagt.

Ég vil byrja á því að segja varðandi það orðalag sem hv. þingmaður kom hér að, um það möndl sem sá er hér stendur, formaður fjárlaganefndar, viðhafði, að ég get tekið allri gagnrýni, en svona orðalag er alveg á mörkunum, finnst mér, reitir mig aðeins til reiði. Ég ætla samt að reyna að haga mér vel hér í þessum ræðustól, ég geri mér far um það, en þetta er alveg á mörkunum. Við erum algerlega sammála um það, ég og hv. þingmaður, að áhersla á rannsóknir, þróun og menntun er í samræmi við stjórnarsáttmála, er í samræmi við ríkisfjármálaáætlun, og þess vegna var þetta dregið fram alveg á síðustu metrunum fyrir 3. umr., sem hv. þingmaður fór hér mjög vel yfir, skerðing á Rannsóknasjóði. En við skulum átta okkur samt á því að hér er verið að hækka málaflokk 7.10 um 9,1%. Þessi ákveðni sjóður hefur fengið miklar hækkanir, 65% hækkun frá 2013, þannig að það er ekki bara hæstv. ríkisstjórn sem leggur áherslu á það heldur hefur verið gert mikið í þessum málum. Það er af því að við erum sammála um það að við þurfum til framtíðar og vegna komandi kynslóða að huga vel að menntun, rannsóknum og nýsköpun. Ég er sammála hv. þingmanni varðandi það.

En hv. þingmaður þarf ekki að hafa áhyggjur af þeirri breytingartillögu sem hún fór hér yfir, vegna þess að það er búið að stíga inn í þetta mál og afgreiða vegna þess að …(Forseti hringir.) Ég verð að koma því að í seinna andsvari vegna þess að bjallan er farin að klingja (Forseti hringir.) í hnakkann á mér.