149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:55]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það stóð ekki til að reita hv. þingmann til reiði og ég hef unnið með hv. þingmanni lengi og satt að segja hef ég ekki séð hann reiðan. Þetta orðalag um möndl átti ekki að vera niðrandi um hv. þingmann, heldur um þann málatilbúnað sem hv. þingmaður kynnti. Þegar við samþykktum lög um opinber fjármál og þegar við vorum að vinna að þeim var leiðarljósið þetta: Setjum upp ferla þannig að við getum sett niður áætlanir og stefnu sem við vinnum eftir og sem á að standast a.m.k. yfir eitt ár. Þess vegna endurskoðum við fjármálaáætlunina á fimm ára fresti.

Þegar fjárveitingavaldið fær ekki að vita hvernig á að mæta þessari aðhaldskröfu, viðbótaraðhaldskröfu sem kemur inn á milli umræðna, finnst mér það óásættanlegt. Ef það á ekki að mæta henni með því að skera niður Rannsóknasjóð þá getur það ekki verið í samræmi við það leiðarljós sem við vorum að vinna eftir þegar við unnum frumvarpið um opinber fjármál og samþykktum síðan í þessum þingsal. Þetta er það sem ég vil kalla möndl. Ég vil fá að vita áður en við samþykkjum þetta frumvarp hvernig málaflokkarnir leggjast. Og ég vil fá að sjá hvar á að skera niður í staðinn.