149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:58]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég vil bara segja fyrst að ég kemst yfir þetta og við skulum ekki hengja okkur í orðalagið. Ég er sammála hv. þingmanni. Verklagið á að vera í lagi. Það er nú samt þannig í þessu verklagi að innan málaflokka þá má ráðherra og getur og á að hafa svigrúm til þess að færa á milli. Hann þarf hins vegar að tilkynna hv. fjárlaganefnd ef hann hyggst færa á milli málefnasviða, en það er sagt þegar hann er kominn inn á fjárlagaárið.

Ég vil bara segja að ég er sammála hv. þingmanni og við í meiri hlutanum sem þurftum að gera þetta hér á skömmum tíma höfum þegar farið yfir það að við þurfum að fá það á hreint hvernig hæstv. ráðherra hyggst bregðast við á þeim málefnasviðum og innan þeirra málaflokka sem um ræðir. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni, en ég get því miður ekki svarað því frekar hér þótt ég gjarnan vildi.