149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:59]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt að hæstv. ráðherrar hafa svigrúm til þess að færa á milli ef eitthvað óvænt kemur upp. En það á ekki að segja á milli umræðna að eitthvað óvænt muni — það eigi einhvern veginn að græja það eftir að búið er að samþykkja frumvarpið. Það er ekki verklagið sem við samþykktum.

Við þingmenn, bæði í stjórnarandstöðu og í stjórninni, þurfum að veita framkvæmdarvaldinu aðhald og það á að fara eftir því sem við segjum hér. Við segjum með lögum um opinber fjármál: Þið fáið svigrúm til þess að færa á milli og það er ákveðinn sveigjanleiki í því, vegna þess að eitthvað getur komið upp á á árinu. En þegar við samþykkjum frumvarpið fyrir árið 2019 þá þurfum við náttúrlega að vita hvernig hlutirnir eiga að leggjast, þá er ekki hægt að vera með svona lausa enda. Á föstudaginn þegar við göngum frá frumvarpinu verður þetta allt að vera á hreinu. Markmiðið með lögunum var að við ætluðum að hætta þessu fúski sem hefur viðgengist árum saman. Þegar ég var í fjárlaganefnd þá vorum við oft að glíma við nákvæmlega það sama og hv. þingmaður lýsir hér. En hugmyndin var sú að bæta áætlunargerð, auka aga og aðhald í ríkisfjármálum og láta ekki lausa enda standa út af þegar gengið er frá fjárlögum fyrir hvert ár.