149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:01]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Fjárlaganefnd fékk fjárlög aftur til afgreiðslu eftir 2. umr., aðallega vegna þess að ákveðið var að bíða með að afgreiða tillögur ríkisstjórnarinnar um lánveitingu til Íslandspósts. Nefndarmenn höfðu efasemdir um að réttar forsendur væru fyrir því að ríkið hlypi undir bagga með Íslandspósti, hvort sú upphæð sem lögð væri fram var í raun til komin vegna hallareksturs vegna þeirrar alþjónustu sem Íslandspóstur sinnir. Ekki fengust viðunandi svör um það hvort svo væri.

Í áliti meiri hlutans er farið yfir spurningar og svör sem nefndin sendi Íslandspósti þar sem beðið var um rökstuðning fyrir lánsfjárhæðinni, hvernig ætlunin væri að nýta lánið, hvernig félagið hygðist endurgreiða það, til hvaða hagræðingaraðgerða hefði verið gripið að undanförnu og hvernig stjórnin sæi fyrir sér að hægt væri að uppfylla alþjónustukvöð póstþjónustu. Einfalda svarið er, eins og kemur fram í áliti meiri hlutans, að félagið er ekki rekstrarhæft til framtíðar og getur ekki staðið undir skuldbindingum sínum. Ég tel því óhjákvæmilegt að líta svo á að hér sé ekki um lán að ræða heldur einfaldlega ríkisstyrk. Þó að verið sé að segja að þetta sé lán á markaðskjörum er ekki búið að fá álit Ríkisábyrgðasjóðs á því hverjir eru í raun markaðsvextir á þessu láni.

Það þarf að koma skýrt fram, það er ekki bara hægt að vísa í einhverja vexti sem fyrirtækið fékk í upphafi þessa árs og segja að sömu forsendur séu fyrir þeim vöxtum þá og núna. Það virkar ekki þannig. Ég vil líka segja að þetta sé ríkisstyrkur því að þó að lánið yrði endurgreitt að fullu, sem verður að teljast ólíklegt, kæmi sú endurgreiðsla einungis niður á framtíðarrekstri af því að félagið er ekki rekstrarhæft sem ríkið þarf hvort eð er að styrkja seinna meir. Ekki eru gerðar neinar kröfur til Íslandspósts fyrir lánveitinguna umfram þær aðgerðir sem telja mætti eðlilegt að félagið grípi sjálft til. Ýmsir nefndarmenn fjárlaganefndar höfðu hátt um ákveðin skilyrði sem þyrftu að vera fyrir láninu sem hvergi er að finna.

Nú langar mig til að skammast aðeins aftur svipað og ég gerði í 2. umr. þar sem ég fékk einfaldlega of lítinn tíma til að klára nefndarálit. Það gafst aðeins rýmri tími til þess núna. Nefndarálit meiri hlutans þá var afgreitt úr nefnd án þess að allur textinn væri í raun kominn inn í nefndarálit þegar það var afgreitt úr nefndinni. Það er aftur svipað hérna. Hérna kemur fram breytingartillaga eftir að búið er að afgreiða málið úr nefndinni og minni hlutinn er einfaldlega ekki látinn vita. Þetta varðar þessa lagfæringu í málaflokki 7.10 þar sem meiri hlutinn dró frá 146,6 milljónir sem áttu að vera almennar ráðstafanir til að draga úr útgjaldavexti.

Málið er það að útgjaldavöxturinn á þessu málefnasviði er til kominn vegna rammaáætlunar ESB í mennta- og rannsóknarmálum og ýmislegu sem er tengt landsframleiðslu. Af því að landsframleiðslan hefur vaxið svona mikið hefur sú upphæð einfaldlega hækkað mikið. Allar upphæðir nema ein á þessu málefnasviði hafa hins vegar lækkað. Það er Rannsóknamiðstöð Íslands. Þar voru fjárlög 2018, 38,4 milljónir fóru niður í 32,3, markáætlun á sviði vísinda og tækni voru 207,5 milljónir, fóru niður í 192,5, Rannsóknasjóður lækkaði um 35 milljónir, úr 2 milljörðum og 505 milljónum í 2 milljarða og 470 milljónir. Rammaáætlun var sú eina sem hækkaði, úr um 1,8 milljörðum í 2,6, varasjóður málaflokksins lækkar um 10 milljónir.

Rannsóknasjóður til að auka verðmæti sjávarfangs lækkar um 2 milljónir. Tækniþróunarsjóður lækkar líka um einar 40 milljónir. Það eina sem hækkar er Framleiðnisjóður landbúnaðarins, fer úr 127 milljónum í 133,8 milljónir. Þetta er útgjaldavöxtur þessa málefnasviðs, þessi landsframleiðslutenging rammaáætlunar ESB um menntun, rannsóknir og tækniþróun. Meiri hlutinn setur þá kröfu að fara eigi í almennar ráðstafanir til að draga úr útgjaldavexti á þessu málefnasviði út af þeirri hagspá sem kom síðan inn og útfærslan á því er að taka það af Rannsóknasjóði. Að sjálfsögðu verður allt vitlaust við það því að það er einfaldlega gegn stjórnarsáttmálanum, það er svo einfalt. Það er ekki hægt að monta sig af því að fjárframlög til þessa málefnasviðs séu að hækka svo rosalega mikið af því að um er að ræða skuldbundna hækkun miðað við landsframleiðslu. Það er ekkert við því að gera. Það gerist óháð því hvaða ákvörðun einhver tekur. Það er óháð stefnu stjórnvalda hvað það varðar. Nú er aftur komin tillaga frá meiri hluta fjárlaganefndar um að hækka fjárframlög um 70 milljónir eftir að búið er að lækka þau um 140 milljónir. Skilaboð frá formanni fjárlaganefndar eru þau að menntamálaráðherra ætli að brúa bilið. Þá munar í því bili þessum 35 milljónum sem voru upprunalega dregnar frá í fjárlagafrumvarpinu og síðan aukalega þessum 146,6 milljónum, sem var síðan plús 70 í milli, sem eru þá 111,6 milljónir sem vantar þar upp á. Þá upphæð þarf menntamálaráðherra að draga einhvers staðar fram af þessu málefnasviði. Ekki af öðrum málefnasviðum, ekki frá háskólanum, framhaldsskólunum, heldur af nákvæmlega þessu málefnasviði. Það má færa á milli málaflokka innan málefnasviðanna ef fyrir því eru ákveðin rök o.s.frv. en þá þarf ráðherra að taka frá Rannsóknamiðstöð Íslands eða markáætlun á sviði vísinda og tækni — er Innviðasjóður ekki inni í þessu líka eða er hann hjá atvinnuvegaráðuneytinu? Ég man ekki alveg hvernig þetta er.

Ekki er verið að taka frá rammaáætlun ESB um menntun því að það er bundið samkvæmt landsframleiðslu. Að sjálfsögðu spyrjum við þessarar stóru spurningar: Hvaðan eiga 111 milljónir að koma inn í Rannsóknasjóðinn frá öðrum fjárlagaliðum á þessu málefnasviði? Það er bara alls ekkert augljóst og ég held að gagnrýnin yrði alveg jafn mikil ef þetta yrði tekið frá Rannís, frá Rannsóknamiðstöð Íslands, enda myndi það ekki duga, það eru ekki nema 32,3 milljónir, þar vantar ansi mikið upp í 111 milljónir.

Til að byrja með fékk minni hlutinn ekki að vita að það væri lagfært um 70 milljónir. Minni hlutinn fékk ekki að vita, við fengum að heyra það af afspurn, að útfærslan á þessum almennu ráðstöfunum til að draga úr útgjaldavexti færi á Rannsóknasjóðinn. Við fengum ekki að vita það frá ráðherra eða neitt svoleiðis. Við fengum að vita það í gegnum fræðasamfélagið sem átti að taka við þessu, frá stofnunum o.s.frv. Þannig að það er rosalega margt að í fjárlagafrumvarpinu og í þessu ferli öllu sem við erum að reyna að komast inn í, sem sagt í lögum um opinber fjármál. Það er verið að gera svo rosalega margt á gamla mátann, á því tempói sem fjárlög voru unnin í áður en lög um opinber fjármál voru tekin upp.

Fjárlagafrumvarpið ber þess enn merki, alveg klárlega. Það er ekkert gagnsæi í því af hverju bundin útgjöld hækka um ákveðna upphæð. Það er ekkert gagnsæi í því af hverju útgjaldasvigrúmið, sem er peningar inn í ný verkefni, eykst eða minnkar. Það vantar algerlega slíkt gagnsæi. Ég bað um betri sundurliðun á þessari útgjaldabrú og það gerði fjárlaganefnd líka, útskýringar á því af hverju fjárheimildir málefnasviðs breytast úr 100 milljörðum í 200 milljarða eða hvað það er, á hvaða málefnasviði sem það er. Af hverju þarf ráðherra þessa fjármuni?

Hvað er það í stefnu stjórnvalda, hvað er það sem hefur verið gert til að bæta eða efla stöðuna sem kostar þennan aukapening? Við því bárust mjög fá svör. Það barst eitt svar, eins og ég tek fram í nefndaráliti mínu, frá dómsmálaráðuneytinu, sem ber að hrósa en það barst með of stuttum fyrirvara til að hægt væri að taka tillit til þess í nefndaráliti fyrir 2. umr. Ég minni þá bara á það núna. Í þeim sundurliðunum sem við þó fengum er hægt að rekja sig niður á sundurliðun, sem stóðst upp á krónu, á því hvert útgjaldasvigrúmið var að fara, í hvaða verkefni. Það var hægt að rekja þetta, fínt, frábært. Við bættust síðan sundurliðanir frá öðrum ráðuneytum sem deildu málefnasviði. Þar kom líka sundurliðun inn á sama málaflokk sem bætti við peningi í útgjaldasvigrúmið. Og þá var allt í einu útgjaldasvigrúmið ekki á núlli. Þá vantaði allt í einu 25 milljónir út af því málefnasviði sem t.d. umboðsmaður barna heyrir undir og maður þarf að klóra sér í hausnum til að sjá hvernig þetta á allt að virka saman hérna. Ég bara verð að segja að tilfinningin er sú að það sé mjög lítið samtal og virkni um það hvernig stefnan sem verið er að setja passar saman við fjárheimildirnar og ástæður þess að þessar fjárheimildir þurfi til. Tilfinningin er einmitt sú að þetta sé öfugt.

Það er sett stefna. Fólk hefur litla hugmynd um hver kostnaðurinn er við stefnuna og svo er bara reynt að skrapa saman þá peninga sem hægt var að finna og deilt inn á verkefnin eftir hentisemi, bara eftir því hvað liggur næst, ekki eftir því hvað skilar sér best. Sú greining er ekki til staðar af því að ekki eru til kostnaðar- og ábatagreiningar fyrir þau verkefni sem stjórnin setur fram í fjármálaáætluninni og í fjárlögunum.

Ég geri athugasemd við þetta vandamál sem ég bendi á hér, að meiri hlutinn kemur með breytingartillögu inn eftir að hann er búinn að afgreiða álit sitt úr nefnd sem ruglar mitt álit. Ég geri ráð fyrir því að allt standi óbreytt frá því að álitið er afgreitt úr nefnd. Ég skrifa hluta álits míns einmitt um þessar 146,6 milljónir sem eru dregnar frá málefnasviði 7.10, Vísindi og samkeppnissjóðir í rannsóknum. Svo kemur á daginn að það er ekki alveg rétt af því að síðan er búið að bæta við 70 milljónum. Það væri smákurteisi að láta mann alla vega vita, þannig að maður gæti kannski tekið tillit til þess. Ég veit ekki hvenær ákvörðun var tekin, ég veit ekki hvenær breytingartillagan var send inn, kannski var það bara núna rétt fyrir þingfund. Þá hefði nefndarálitið mitt svo sem verið löngu tilbúið, en það verður þá að gera grein fyrir þessu í ræðu sem er ekki þægilegasta leiðin til að gera þetta.

Ein breytingartillaga kom hér í viðbót frá meiri hlutanum sem er mjög ánægjuleg. Það er breytingartillaga upp á 4 milljónir til umboðsmanns Alþingis til að hann geti sinnt svokölluðum OPCAT-verkefnum. Það er ákveðinn samningur og sáttmáli um eftirlit með pyndingum o.s.frv. Þetta er samt sama breytingartillaga og við í Pírötum lögðum fram í 2. umr. fjárlaga og sú tillaga var þá felld. Meiri hlutinn er þannig búinn að fella tillögu Pírata um 4 milljóna fjárframlög til umboðsmanns Alþingis en leggur þó nákvæmlega sömu tillögu fram aftur núna fyrir 3. umr.

Vissulega var líka að finna breytingartillögu um fjárupphæð sem átti að renna til Ríkisendurskoðunar og það kemur niður á sama fjárlagalið. Það kemur heildarsumma sem var hafnað í heild sinni en það bendir líka á ákveðið fjárveitingarvandamál sem við glímum þá við í atkvæðagreiðslu hérna. Þegar við í Pírötum leggjum fram breytingartillögu um fjárveitingar til umboðsmanns Alþingis og Ríkisendurskoðunar kemur það ekki í tveimur liðum sem greidd eru atkvæði um af eða á, heldur eru greidd atkvæði um þá saman af því að þeir eru undir sama málefnasviði. Ég velti fyrir mér hvort ekki þurfi að athuga þetta betur í framtíðinni.

Fjárlaganefnd fékk einnig til sín fjölda erinda um fjármögnun á hinum og þessum verkefnum. Það sem vekur mesta furðu eru síendurtekin erindi fyrri ára sem fjárlaganefnd hefur komið til móts við aftur og aftur. Þessu fyrirkomulagi verður einfaldlega að ljúka. Annaðhvort eiga ráðuneytin, sem þessi erindi beinast að, að taka þessi verkefni inn á samning til sín eða gera eitthvað annað hvað varðar þjónustuna eða gefa það hreinlega út að þessi verkefni eigi ekki að fá styrk frá ríkinu. Það er gjörsamlega óþolandi að alltaf þurfi einhver verkefni að vera háð miskunn fjárlaganefndar. Það er heldur ekkert sem bendir til þess að ráðuneytin geti ekki tekið við þessum verkefnum án aukins fjármagns. Það þýðir að þegar fjárlaganefnd samþykkir svona fjárveitingar er í raun verið að láta ráðherra fá fjármagn í önnur verkefni eða sem svigrúm til að mæta veikleikum í framkvæmd fjárlaga.

Þetta er rosalega alvarlegt þegar maður pælir aðeins í því. Ráðherra hefur 100 milljónir í öll þau verkefni sem hann dreymir um. Inni í þeim 100 milljónum, segjum sem svo, er t.d. það að fjármagna frábær verkefni Hugarafls eða Ljóssins. En við fáum ekkert að vita af því. Svo er sótt um. Heyrðu, við höfum ekki heyrt neitt um að við séum að fá áframhaldandi styrk til að halda starfseminni uppi. Fjárlaganefnd hleypur bara til eins og hauslaus hæna og samþykkir: Gjörið svo vel. Hérna fáið þið 30 milljónir. Og eftir stendur ráðherra enn með 100 milljónir, auka 30 milljónir — þetta er dæmi, þetta er hypoþetískt dæmi. Við vitum ekki hvort ráðherra hafði bolmagn til þess að standa undir þeim verkefnum sem voru þarna í gangi. Við fengum meira að segja loforð í 2. umr. um að ráðherra væri búinn að leysa þetta vandamál með Hugarafl. Þess vegna var engin breytingartillaga þá en hún kemur allt í einu núna inn í 3. umr. Þetta er vandamál. Fólk hlýtur að sjá hversu ógagnsætt þetta er fyrir Alþingi að glíma við.

Mig langar að ljúka þessu á orðum sem hv. þm. Óli Björn Kárason lét falla í störfum þingsins í dag sem passa ágætlega inn í umræðuna um fjárlög. Þar nefndi hann að ríkissjóður hefði aldrei staðið jafn vel skuldalega séð og ýmislegt svoleiðis. Eins og ég hef bent á áður í þessum ræðustól er ýmislegt sem við tökum ekki tillit til. Þar ber hæst þessa innviðaskuld. Við sjáum ákveðna gjá fyrir framan okkur í verkefnum sem þarf að fjármagna strax. Ég get ekki sagt á næstu árum því að það liggur svo mikið á þeim. Ekki er tekið tillit til þessarar skuldar í stöðu ríkissjóðs.

Það gerir það að verkum að ríkissjóður er ekki í bestu stöðu sem hann hefur nokkurn tímann verið í. Kannski hvað varðar þessa peningalegu skuldastöðu en á heildina litið: Nei. Það hefur verið farið yfir það þó nokkuð oft á undanförnu ári og fyrir kosningar hver uppsöfnuð skuld væri í innviðum. Samtök iðnaðarins gáfu út góða skýrslu um það. Það eru ófáir milljarðar. Við verðum að taka tillit til þessara skuldbindinga, þessarar viðhaldsþarfar og fjárfestingarþarfar, uppbyggingar sem við höfum vanrækt á undanförnum árum á meðan við höfum einblínt á niðurgreiðslu skulda. Við sjáum það svart á hvítu hversu mikla vexti við spörum þegar við greiðum þessar peningalegu skuldir niður. Það er mjög gott að geta séð það.

Á sama tíma erum við með ákveðna samfélagslega skuld í innviðum og við vitum ekki hver vaxtakostnaðurinn er. Það er slæmt að vita ekki vaxtakostnaðinn þar. Kannski er hann hærri en á lánum sem við höfum borgað niður. Kannski væri meiri arður af því að fara í ákveðna framkvæmd í staðinn fyrir að greiða þetta lán niður. Þá myndum við losna við uppsafnaðan vaxtakostnað af þeirri framkvæmd, sem safnast upp á meðan ekki er farið út í hana, og við náum ábatanum af þeirri framkvæmd til framtíðar mun fyrr. Það vegur líka upp á móti vaxtakostnaðinum á láninu sem annars hefði verið greitt upp.

Við þurfum að huga að þessu á næstunni og væri mjög gott að fá betri greiningar á þessu í framtíðinni til þess einmitt að geta tekið mun upplýstari ákvörðun um það hvort við eigum að borga niður skuldir eða fara í fjárfestingar eða uppbyggingu. Ég hlakka til þess þegar lög um opinber fjármál eru í alvörunni farin að virka og farnar að koma stefnur og áætlanir sem eru kostnaðarmetnar og ábatagreindar og þegar við getum farið að tala betur um það af hverju við erum að taka þessa stefnu en ekki aðra. Umræðan hefur verið rosalega lítil á þeim nótunum. Rosalega lítil umræða hefur verið, bæði í fjármálaáætluninni og í fjárlögunum, um stefnuna sem fjárlögin eiga að byggja á. Við ættum að fletta upp í köflunum og skoða stefnuna í ferðaþjónustu og spyrja: Eigum við að marka langtímastefnu um þróun sjálfbærrar ferðaþjónustu í samvinnu við hagsmunaaðila? Þetta er mjög almennt orðað. Það hljómar mjög sjálfsagt. Þetta er einhver aðgerð. Hún hljómar samt ekki mjög markviss. Maður sér ekki árangurinn af henni. Þá þarf maður að fara að rekja sig aftur í fjármálaáætlunina, þar sem eru einhver viðmið um það hvaða árangri þessi aðgerð á að skila, þ.e. að móta langtímastefnu.

Að styðja við markaðsstofur landshlutanna, örugglega mjög fín aðgerð. Ég fer aftur í fjármálaáætlunina og spyr: Hvaða árangri ætlum við að ná með því að styrkja markaðsstofur landshlutanna? Þá getum við spurt okkur hvort það að fara í þessa aðgerð eða mögulega einhverja aðra aðgerð skili okkur í rétta átt eða ekki. Ég hef spurt að því áður í þessum ræðustól hvort við séum í raun og veru að fara eftir lögum um opinber fjármál. Svarið hefur verið: Já, en á sama tíma erum við líka í innleiðingarferli. Lög um opinber fjármál voru með ákveðinn gildistíma. Þau tóku gildi á sínum tíma, árið 2015. Það var bara þá, þá voru þau í fullu gildi. Það voru settir fyrirvarar á nokkur atriði, t.d. ársskýrslu ráðherra, en ekki mikið annað. Lögin eru í fullu gildi og við eigum að fylgja þeim. Ráðuneytin eiga að skila okkur fjárlögum og fjármálaáætlun samkvæmt lögum um opinber fjármál. Ef þau vilja í alvörunni innleiðingarferli verður að gera þá tröppu í lögunum til þess að það sé skýrt fyrir okkur hér á Alþingi, þar sem fjárveitingavaldið á að vera, við hverju við megum búast.

Á undanförnum tveimur árum höfum við afgreitt fjárlög á allt of stuttum tíma. Það hefur verið gjörsamlega ómögulegt að komast að því hvort og hvað hefur verið samþykkt. Af hverju þurfti 100 milljónir þarna og 200 milljónir annars staðar? Það var ekki tími til að svara því. Í fyrsta skipti núna erum við að byggja á næstum því heilu ferli í lögum um opinber fjármál. Stjórnin fékk eilítið styttri tíma en stjórn á hefðbundnu kjörtímabili hefði fengið til að setja fram fjármálastefnu. Fjármálaáætlun fékk u.þ.b. þann tíma, og hún skilaði meira að segja aðeins of seint, sem hún þurfti, sem gert er ráð fyrir í lögum um opinber fjármál. Fjárlögin gera það líka.

Samt erum við á þeim stað í dag að við vitum ekki hvað tölurnar þýða án þess að biðja um sérstaka sundurliðun. Við vitum ekki hvað það þýðir þegar meiri hlutinn segir mínus 146,6 milljónir í málaflokk 7.10. Við fengum að vita af því í gegnum hliðarherbergin, stofnanir og þá sem eru að vinna í því, að það þýddi í raun niðurskurð hjá Rannsóknasjóði. Auðvitað ættum við að vita þetta frá upphafi. Mér finnst það mjög alvarlegt. Það kom fram þegar við samþykktum fjárlög áður, þegar fjárlaganefnd lagði þó nokkuð aukalega í samgöngumál sem skilaði sér ekki nægilega nákvæmlega í greinargerð, að ráðherra gat þá allt í einu gert hvað sem hann vildi við þá peninga.

Það kom fram í breytingartillögu meiri hluta að þetta ættu að vera almennar ráðstafanir til að draga úr útgjaldavexti. Almenna aðgerðin sem ráðherra túlkaði væri að draga alla upphæðina frá Rannsóknasjóði. Ég verð að gera athugasemd við að það getur ekki verið almenn aðgerð að útfæra slíka aðhaldsaðgerð með þeim hætti. Þar tel ég ákveðinn brest vera á milli þess sem þingið ætlast til hvað fjárlög varðar og hvað gerist síðan í ráðuneytunum. Næsti hluti af því ferli er eftirlit með framkvæmd fjárlaga. Nú höfum við samþykkt þessi fjárlög og þurfum að geta spurt ráðherra í framhaldinu: Skila fjármunirnir sem þú fékkst okkur í áttina að þeim markmiðum sem sett voru samkvæmt stefnunni eða ekki?

Vandamálið er að ráðherra getur ekki svarað því. Það er af tveimur ástæðum, aðallega út af því að mælikvarðarnir eru annars vegar tiltölulega ónákvæmir og misgóðir á milli málefnasviða og hins vegar af því að aðgerðirnar eru ekki kostnaðarmetnar. Þá er ekki hægt að segja: 100 milljónir dugðu akkúrat fyrir þessu og voru alveg fullkomin kostnaðaráætlun. Við komumst meira að segja að því að við gátum bætt um betur og gerðum þetta fyrir 95 milljónir, við spöruðum. Hver veit hvort það var rétt eða ekki af því að kostnaðarmatið lá ekki fyrir fyrir fram? Það var hægt að skálda það eftir á. Það er nokkuð sem við megum ekki láta ganga yfir okkur hér því að nákvæmlega það er að afsala sér fjárveitingavaldinu.