149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:29]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Forseti. Mig langar til að beina athyglinni að því sem hv. þingmaður hóf umræðu sína á og það er neyðarlánið til Íslandspósts, eða eins og hann fór vel yfir er réttara að tala þar um tapað fé ríkissjóðs eða ríkisstyrk í ljósi þess hver svörin voru um aðstæður og framtíðarhorfur.

Þar sem hv. þingmaður situr í fjárlaganefnd og er einnig áheyrnarfulltrúi í umhverfis- og samgöngunefnd langar mig að fá skoðun hans á því hvort og hvernig við getum stoppað þessa þróun, að hér sé um að ræða eitthvert ferli sem er háð skoðunum misviturra stjórnmálamanna. Mig langar til að vitna í frétt þar sem fyrrverandi þingmaður, Lilja Mósesdóttir, segir, með leyfi forseta:

„Á þeim tíma“ — hún á við árin 2010–2011 — „var Steingrímur J. Sigfússon fjármála- og efnahagsráðherra og Lilja Rafney Magnúsdóttir stjórnarmaður í Íslandspósti og nefndarmaður í samgöngunefnd. Ég hvatti þau til að grípa í taumana áður en í óefni væri komið. Steingrímur og Lilja virtust ekki átta sig á alvarleika málsins og ekkert gerðist. Nú er Íslandspóstur kominn í þrot og reikningurinn sendur á skattgreiðendur.“

Hvað getur hv. þingmaður sagt (Forseti hringir.) mér? Hvernig getum við komið í veg fyrir þessa þróun? Þetta er ekkert lítið (Forseti hringir.) alvarlegt núna þegar ríkisstjórnin, fjárlaganefnd, stendur frammi fyrir því að skera verulega niður (Forseti hringir.) milli 1. og 2. umr. Það hefði sannarlega munað um þessa fjármuni ef þetta hefði ekki verið í bakhöndinni.

(Forseti (BHar): Forseti vill minna hv. þingmenn á að virða tímamörkin.)