149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:33]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé hárrétt hjá hv. þingmanni, það er alla vega mín tilfinning vegna þess skorts á svörum sem maður fékk. Við viss svör vantaði ákveðnar útskýringar sem var beðið um. Maður fær það á tilfinninguna, einmitt vegna frumvarpsins sem liggur fyrir umhverfis- og samgöngunefnd um afnám einkaréttarins o.s.frv., að það sé í gangi ákveðin stöðutaka gagnvart ákvæðum í því frumvarpi um hvað ríkið kemur til með að þurfa að greiða fyrir alþjónustuna þegar upp er staðið. Það sé verið að búa sér til meira olnbogarými sem fyrst, ekki miðað við það hversu mikill kostnaður er í rauninni af alþjónustunni miðað við einkaréttinn eins og hann er núna, heldur sé þetta bara til þess að vera með meira á milli handanna þegar ríkið þarf síðan samkvæmt nýju lögunum að standa undir kostnaðinum af þjónustunni.