149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:36]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Meiri hluti fjárlaganefndar beinir því til stjórnar og eigenda að marka fyrirtækinu skýra stefnu og endurmeta mögulega stöðu þess á póstmarkaði. Við erum að segja: Við viljum hafa rekstrarhæft fyrirtæki hér eftir að þið hafið lokið ykkar yfirferð um það. Það er forsendan fyrir því að við munum samþykkja að þetta lán verði veitt til fyrirtækisins.

Ég vil líka minna á að það kemur fram í þriðja punkti okkar í þeim álitaefnum sem við leggjum fram að skilgreina þarf umfang alþjónustu innan ramma Evrópuregluverksins og það er það sem ég vísaði til í fyrra andsvari mínu til hv. þingmanns. Ríkið hefur ákveðnar skyldur en ég heyrði ekkert um hugmyndir hv. þingmanns um hvernig ætti að mæta rekstrarvanda Íslandspósts. Ég myndi biðja hann að fara yfir það í seinna andsvari.