149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:39]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni ræðuna. Það er eiginlega komið fram sem ég ætlaði að koma að hér, virðulegur forseti, er snýr að Íslandspósti. Hv. þm. og varaformaður hv. fjárlaganefndar, Haraldur Benediktsson, dró það allt mjög skýrt fram. En ég vil hins vegar koma inn á margt sem snýr að forminu og hv. þingmaður fór yfir, eins og hann gerði í 2. umr. er varðar verklag og framsetningu. Ég ætla ekki endurtaka það sem hv. þingmaður fór ágætlega yfir í ræðunni, en ég ætla bara að segja það að ég get ekki annað en tekið undir flest það sem hv. þingmaður kom að í sinni ræðu, hvað varðar framsetningu og upplýsingar sem við erum að vinna úr og þetta innleiðingarferli, sem ég ætla að halda áfram með í seinna andsvari. Tíminn líður svo hratt.