149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:42]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, ég held að ég geti ekki komist hjá því. Ég er svona ákveðinn kerfakarl, ég sé alltaf fyrir mér hvernig kerfi virka og eftir því sem maður fer oftar í gegnum kerfi þá sér maður ýmsa hnökra sem maður rekst á og bendir á eða spyr um: Væri ekki eðlilegra að gera þetta á einn eða annan hátt öðruvísi? Þarna er greinileg hraðahindrun, eða eitthvað því um líkt.

Það hafa svo sem ekki verið nema jákvæð viðhorf gagnvart því, t.d. í ráðuneytunum. Ég er samt að vinna hérna núna þriðju fjárlögin síðan ég kom inn á þing og ég sé ekki rosalega mikinn mun, satt best að segja. Þegar skrifstofa opinberra fjármála kemur með kynningar sínar eru þau komin mjög langt áfram, en sú vinna virðist ekki vera komin langt inn í önnur ráðuneyti. Ég held því að stíga þurfi pínu á bensíngjöfina þar og ná þeirri góðu vinnu sem er þar í gangi inn í öll ráðuneytin (Forseti hringir.) og þar af leiðandi inn í allt fjárlagaferlið.