149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:43]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Það gleður mig kannski fátt meira en þegar einhverjir af hv. þingmönnum vitna í mín orð. Mikið væri ég feginn og þætti betra ef menn vitnuðu rétt til þeirra orða sem ég læt falla. Hv. þm. Björn Leví Gunnarsson vitnaði til mín og þeirra orða sem ég lét falla undir liðnum störf þingsins og fullyrti áðan í ræðu sinni að ég hefði haldið því fram að staða ríkissjóðs hefði aldrei verið betri. Þetta sagði ég ekki, hv. þingmaður. Hv. þingmaður sem gefur sig út fyrir að vera maður formfestu og gerir athugasemdir á athugasemdir ofan þegar einhverjum reglum er ekki fylgt hlýtur að vilja hafa rétt eftir þegar hann telur ástæðu til að vitna í aðra þingmenn. Það sem ég sagði er einfalt: Hrein erlend staða þjóðarbúsins hefur aldrei verið betri (Forseti hringir.) og við eigum að gleðjast yfir því.