149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:47]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla rétt að vona að hv. þingmaður geti skilið það með mér svo að það séu fleiri tilvitnanir til en bara beinar tilvitnanir. Hv. þingmaður (ÓBK: Já, þær verða að vera réttar, óháð …) gerði ráð fyrir að ég hefði verið með beina tilvitnun. Ef hv. þingmaður gerir ráð fyrir að ég hafi ekki verið með beina tilvitnun heldur áframhald á samtalinu, vísað í það sem var sagt á þann hátt sem ég skildi það, þá held ég samtalinu áfram til að spyrja: Er þetta það sem er í gangi? Hv. þingmaður kemur til baka og segir: Nei, það var ekki þannig.

Þannig gengur samtal fyrir sig. Það er ekkert rosalega flókið. Ég sagði ekki að um beina tilvitnun hefði verið að ræða. Ég biðst afsökunar á að hafa ekki verið nákvæmari gagnvart því en ég held að almennt séð þurfi þess ekki. Þegar maður tekur fram að um beina tilvitnun sé að ræða kemur það, held ég, skýrar fram.