149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:14]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að láta hjá líða að ræða af einhverjum krafti ummæli hv. þingmanns um virðingu Alþingis og að ríkisstjórnarflokkarnir séu þar sérstakir gerendur í því að draga úr henni. Ég held að þar kunni ýmsir að þurfa að líta dálítið hraustlega í eigin barm, alla vega um þessar mundir. En þingmaðurinn ræddi lítillega eða töluvert um hvað ríkisstjórnarflokkarnir létu tækifærin fram hjá sér fara til þess að skera niður í ríkisútgjöldum og hagræða í ríkisrekstri o.s.frv., en í hinu orðinu ræðir svo Miðflokkurinn um að það verði að bæta í í velferðarmálum. Mestan part hefur Miðflokkurinn talað um að skera niður í ríkisútgjöldum en hefur hins vegar látið hjá líða, a.m.k. oftast, að segja hvar eigi að skera niður, hverjir eigi að fá þá jólakveðju frá Miðflokknum að störf þeirra, stofnanir þeirra, hagur þeirra sé ekki áhyggjuefni Miðflokksins. Hvaða skatta á að lækka og hvaða skatta á að hækka eða hvar á að ná í peningana til að hækka útgjöldin til velferðarmála sem flokkurinn er að tala um?

Það er einhvern veginn allt á skjön í þessum málflutningi. Mér finnst að ef menn ætla að fara fram á þennan hátt — og það er allt í lagi að vera á móti í ríkisútgjöldum, ef menn hafa þá stjórnmálaskoðun er það allt í lagi — verði þeir að hafa kjark til að segja hvar á að skera niður.