149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:16]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að koma upp og leggja fyrir mig þessar fyrirspurnir. Ég vil hvetja hv. þingmann í fyrsta lagi til að kynna sér nefndarálit Miðflokksins við 2. umr. Þar er að finna nokkur svör við því sem hv. þingmaður spurði um. Miðflokkurinn hefur gagnrýnt hversu bætt er í ríkisbáknið í þessu fjárlagafrumvarpi og ég get nefnt dæmi í þeim efnum. Það að skipta velferðarráðuneytinu upp í tvö ráðuneyti á ný kostar rúmar 200 millj. kr. Það er verið að fjölga starfsmönnum, ráða nýjan ráðuneytisstjóra o.s.frv. Við sjáum ekki þörf fyrir þetta. Þarna er hægt að spara peninga. Hækkun til stjórnsýslu umhverfismála er 800 millj. kr. Við sjáum ekki þörf fyrir þá hækkun. Verið er að hækka til sendiráða um 500 millj. kr. Við sjáum ekki þörf fyrir það. Það er því víða hægt að spara í ríkisútgjöldum þegar kemur að því að bæta í ríkisbáknið. Það er fyrst og fremst það sem við höfum rætt um. Hægt er að nýta þá fjármuni t.d. til þess að bæta öryrkjum þá skerðingu sem ríkisstjórnin færir þeim núna í nýársgjöf.