149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:18]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, einangrunarstefna, afneitun á því að loftslagsmálin séu raunverulegt vandamál og að þurfi að huga að umhverfismálum, það er líka sjónarmið. Það er ágætt að það sé alla vega komið upp á yfirborðið.

Mig langar aðeins að spyrja þingmanninn í seinna andsvari mínu út í þetta með séreignarsparnaðinn sem hann gerir að umtalsefni í nefndaráliti sínu. Mér finnst ekki koma neins staðar fram í nefndarálitinu, og ég held að ég fari rétt með að það hafi heldur ekki komið fram í nefndarálitinu við 2. umr., hvernig þingmaðurinn ætlar að mæta tekjutapi sveitarfélaganna sem þau munu óhjákvæmilega verða fyrir ef tillögur þeirra um séreignarsparnaðinn ná fram. Vill Miðflokkurinn (Forseti hringir.) hækka útsvarsprósentuna sem sveitarfélögin hafa heimild til að taka, eða hvernig ætlar hann að mæta því óhjákvæmilega tekjutapi?