149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:19]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég vil byrja á því að bæta aðeins við varðandi kolefnismálin. Miðflokkurinn gerir sér algerlega grein fyrir þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir í þeim efnum. Hins vegar verður þessi skattlagning að vera þannig að hún mismuni ekki landsmönnum og það vantar heildstæða stefnu um það hvernig Ísland ætlar að nota kolefnisgjöld í baráttunni við loftslagsbreytingar án þess að það bitni á landsbyggðinni eða samkeppnishæfni atvinnugreina og dragi þróttinn úr hagkerfinu, svo að það liggi alveg fyrir.

Hv. þingmaður spyr síðan hvernig eigi að bæta sveitarfélögunum upp þann tekjumissi sem þau verða fyrir ef ákvæði um séreignarsparnaðinn verður framlengt. Ég get svarað því til að í umræðunni um veiðigjöldin lagði ég til að sveitarfélögin fengju hlutdeild í veiðigjaldinu og þar er kominn tekjustofn sem hægt væri að nota til mæta þeirri skerðingu. (Forseti hringir.) Það væri óskandi að hv. þingmaður og stjórnarflokkur hans fylgdu því eftir.