149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:21]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að fá að eiga orðastað við hv. þm. Birgi Þórarinsson um nefndarálitið og það sem segir um séreignarsparnað og húsnæðismál. Nú kann að vera að ég misskilji þann texta sem hér er og ræðu hv. þingmanns áðan en ég fæ ekki betur séð en að hv. þingmaður standi í þeirri trú að ríkisstjórnin sé núna að ákveða að leggja niður þá möguleika eða réttara sagt að leyfa ekki lengur fólki sem er að ráðast í sín fyrstu íbúðarkaup að nýta séreignarsparnaðinn í það. Það er rangt. Ef hv. þingmaður er þeirrar skoðunar er ágætt að fram komi að það er rangt. Það úrræði að einstaklingar sem eru að ráðast í sín fyrstu íbúðarkaup geti nýtt sér séreignarsparnaðinn í tíu ár er varanlegt. Það fellur ekki úr gildi um mitt næsta ár, nema síður sé. Þetta er varanlegt ákvæði sem gildir þangað til hv. alþingismenn taka ákvörðun um annað.

Ég vildi koma því á framfæri. Hv. þingmaður getur kannski upplýst mig hvort hann standi í þeirri trú að verið sé að afnema þetta úrræði til þeirra sem eru að ráðast í sín fyrstu íbúðarkaup. Þá er ágætt að vita það, en það er kannski líka ágætt að leiðrétta (Forseti hringir.) ef um misskilning er að ræða.