149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:24]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Mikið er gott að það skuli vera komið á hreint að hv. þingmaður er með þetta alveg á hreinu. Það mátti hins vegar og má skilja það svo af bæði nefndaráliti og ræðu hans að hann standi í þeirri trú, eins og ég talaði um áðan. Ég er feginn að misskilningurinn er minn. Það skiptir auðvitað máli vegna þess að hér er um að ræða gríðarlega mikilvægt úrræði. Ég er sammála því mati hv. þingmanns sem kemur fram í nefndarálitinu að við eigum að taka það til umræðu að auka frekar möguleika einstaklinga til að nýta séreignarsparnaðinn, ég tala nú ekki um þann viðbótarséreignarsparnað eða séreign sem myndast við hækkun á iðgjaldi upp í 15,5%. En það verður hins vegar að vera hluti af þeirri umræðu sem við eigum eftir að taka þegar liggja fyrir heildstæðar tillögur um húsnæðisstuðning almennt, þannig að sú tillaga sem liggur fyrir frá hv. þingmanni og Miðflokknum um frekari stuðning (Forseti hringir.) varðandi séreignarsparnaðinn er ótímabær.