149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:27]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni ræðuna. Margt ágætt í ræðu hv. þingmanns. En ég get ekki setið undir þeim orðum að núverandi hæstv. ríkisstjórn sé áhugalaus um landbúnað og þeir flokkar sem að hæstv. ríkisstjórn standa. Til að leiðrétta þau orð ætla ég að vísa í nefndarálit meiri hluta við 2. umr. sem lýtur að málefnasviði 12, Landbúnaði, þar sem kemur fram að stór hluti eða yfirgnæfandi hluti fjárhagsrammans er bundinn í samningum ríkisvalds og bænda og það eru verulegar fjárhæðir. Þar segir, með leyfi forseta:

„Á undanförnum árum hafa orðið miklar breytingar á rekstrarumhverfi landbúnaðar. Veruleg lækkun tollverndar, hækkaður launakostnaður við úrvinnslu afurða og stóraukinn innflutningur í beinni samkeppni við innlenda framleiðslu hefur skert kjör bænda. Minni markaðshlutdeild og lágt afurðaverð auk verðlækkunar á útfluttum landbúnaðarafurðum rýrir mjög framleiðsluvilja landbúnaðarins. Auknar innflutningsheimildir, og sérstaklega með innflutningi á hráu kjöti, gera samkeppnisstöðu landbúnaðarins enn erfiðari. Mikilvægt er að hafa þessa stöðu í huga við undirbúning fjármálaáætlunar og endurskoðun búvörusamninga á næsta ári. […]

Meiri hlutinn leggur til að við undirbúning fjármálaáætlunar og næstu fjárlagagerðar verði hugað að sókn til aukinnar verðmætasköpunar í matvælaframleiðslu, m.a. með markvissu samstarfi þeirra stofnana ríkisins sem starfa á sviði landbúnaðar, matvælarannsókna og þróunar.“

Hérna birtist skýr áhugi hæstv. ríkisstjórnar á málefnum landbúnaðar og ég ætla að minna hv. þingmann jafnframt á það að fyrir ári síðan mættum við vanda sauðfjárbænda. Þetta er ekki úrlausnarefni sem er leyst á einni nóttu, en við erum mjög vel meðvituð, ríkisstjórnarflokkarnir, um málefni bænda.