149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:32]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni, formanni fjárlaganefndar, fyrir innlegg hans og gott að heyra að honum er umhugað um landbúnaðinn. Ég vænti þess að við sjáum það þá með afgerandi hætti núna í þeirri vinnu sem fram undan er á næsta ári og mikilvægt er að þetta sé ríkjandi skoðun innan ríkisstjórnarflokkanna. Mér finnst nefnilega hafa farið frekar lítið fyrir því, en brýnt er að taka á þessum málum.

Landbúnaðurinn er okkur afar mikilvægur, eins og við öll þekkjum, og íslensk matvælaframleiðsla. Og þegar við erum nýbúin að fagna 100 ára afmæli fullveldis er rétt að geta þess að öflugur landbúnaður, íslensk matvælaframleiðsla, er að sjálfsögðu undirstaða fullveldis.

Að lokum vil ég taka undir góðar kveðjur til hv. formanns fjárlaganefndar, Willums Þórs Þórssonar, fyrir ánægjulegt samstarf í fjárlaganefnd.