149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:34]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Fjárlög hverrar ríkisstjórnar bera merki þeirrar forgangsröðunar sem sú ríkisstjórn starfar út frá. Ef maður ætti að lesa í þá forgangsröðun eða hver metnaður ríkisstjórnarinnar sé í þessu efni þá ber hún þess merki að ríkisstjórnin líti svo á að koffort ríkisstjórnarinnar séu yfirfull, hér sé tækifæri til að eyða fé eins og enginn sé morgundagurinn, ef mætti orða það svo. Það er reyndar dálítið áhugavert að þegar maður sér Sjálfstæðisflokkinn í forystu fyrir ríkisfjármálunum þá fara orð og athafnir aldrei saman. Það er alltaf talað um ráðdeild. Það er alltaf talað um mikilvægi þess að vel sé haldið á ríkisfjármálunum, að gætt sé vandlega að því að fara vel með opinbert fé, því ekkert er jú auðveldara en að sólunda annarra manna fé. En á sama tíma er síðan allt sett á fullt í útgjaldaaukningunni. Raunar er það svo að fáir flokkar sjálfsagt hafa staðið fyrir meiri útgjaldaaukningu hjá ríkissjóði á undanförnum tveimur, þremur áratugum en einmitt Sjálfstæðisflokkurinn. 18 ára valdatíð flokksins fól í sér þriðjungs aukningu ríkisútgjalda á hvern mann á föstu verðlagi. Svo mikil var útgjaldaaukningin, svo mikil var veislan, að útgjöldin stóðu í stað á föstu verðlagi næstu sex ár þar á eftir hið minnsta, þar sem ekkert svigrúm var í ríkisfjármálum fyrir neinar viðbætur og raunar kom það í hlut annarra flokka að skera niður og draga úr þessum fordæmalausa útgjaldavexti eftir vakt Sjálfstæðisflokksins í fjármálaráðuneytinu. Og núna á að hefjast handa aftur. Við horfum upp á fjárlög og fjármálaáætlun ríkisstjórnar þar sem auka á útgjöld á föstu verðlagi um fjórðung að mér sýnist á gildistíma fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar.

Þetta er forkastanlega ábyrgðarlaus stefna í ríkisútgjöldum, verð ég að segja. Það kemur svo berlega í ljós að hér er mynduð ríkisstjórn um hina stórhættulegu málamiðlun að ráðast í útgjaldaaukningu á öllum meginsviðum ríkisfjármálanna en það eigi að lækka skatta á sama tíma. Það gefur augaleið að annar hvor þessara þátta mun brotna, það mun ekki verða innstæða, það mun ekki verða fjárhagslegur styrkleiki fyrir hendi hjá ríkissjóði til að takast á við svo yfirgengilega ábyrgðarlaust loforð.

Það sem er ekki sagt í þessari stefnu er að það er augljóst að hér þarf að hækka skatta og það allverulega í kólnandi hagkerfi ef standa á við þau útgjaldaloforð sem hér hafa verið gefin. Það er svo sorglegt að horfa upp á þetta, eftir alla umræðuna í kjölfar hrunsins um mikilvægi aukinnar ábyrgðar ríkisfjármálanna í hagstjórn, bættrar umgjarðar í kringum ríkisfjármálin í lögum um opinber fjármál, sem reyndar á þeim tíma voru einmitt gagnrýnd fyrir það að þeim myndi aldrei takast að beisla ríkisfjármálin ef stjórnmálamenn ætluðu sér virkilega að sleppa þeim lausum. Þetta er það sem við sjáum gerast hér enn og aftur, að viðmiðunarreglur laga um opinber fjármál hafi ekkert að segja, jafnvel þó svo að fordæmalaus útgjaldaaukning sem raun ber vitni sé fram undan. Þau grípa hvergi í við þær kringumstæður. Það eru enn meiri vonbrigði að sjá að jafnvel á þeim eina stað þar sem þessi viðmið hefðu átt að standa sem einhver bremsa, þ.e. að afkomumarkmið ríkisstjórnarinnar sjálfrar í fjármálastefnu verði ekki lægra en 1% af vergri landsframleiðslu, þá brýtur ríkisstjórnin það sjálf þegar á reynir og skilar núna fjárlögum sem fara undir þetta afkomuviðmið. Slík er útgjaldagleðin í þessu öllu saman.

Það er eðli ríkisfjármála að það verður alltaf að forgangsraða. Það er ekki hægt að gera allt fyrir alla. Viðfangsefni stjórnmálanna á hverjum tíma er: Hvernig stöndum við rétt að forgangsröðun þegar við mætum brýnustu þörfum samfélagsins, brýnustu verkefnunum hverju sinni? Við reynum ekki að lofa öllu fyrir alla sem við vitum á endanum að við munum aldrei geta staðið við.

Á sama tíma og þessi mikla útgjaldagleði er í gangi sjáum við að raunhagkerfið er að kólna nokkuð hratt og þó að ekki sé ástæða til að fara á taugum yfir þeirri þróun, þó að ekki sé ástæða til að ætla að einhver djúp efnahagsniðursveifla sé fram undan, þá gefur augaleið að tekjustofnar ríkissjóðs munu ekki verða jafn sterkir á komandi misserum og verið hefur. Það fylgir því þegar við erum í hápunkti hagsveiflunnar að allt kemur í sama punkt; tekjur einstaklinga eru í hápunkti, neysla einstaklinga er í hápunkti, afkoma fyrirtækja er í hápunkti, og allir helstu tekjustofnar ríkissjóðs skila þar af leiðandi hámarksafrakstri á þeim tímapunkti. Það stillir engin ábyrg ríkisstjórn útgjaldastig ríkisfjármálanna af við þennan hápunkt. Það getur enginn gert ráð fyrir því að þannig muni ríkisfjármálin skila af sér um ókomna tíð. Það er mætavel þekkt hver hagsveiflunæmni, getum við sagt, ríkisfjármálanna er. Hlutfall tekna ríkissjóðs af landsframleiðslu hefur tilhneigingu til að hækka talsvert í mesta hagvextinum en dragast síðan saman þegar um hægist. Það þarf ekkert djúpa niðursveiflu til að þessi sveifla eigi sér stað, þvert á móti. Við sjáum þess skýr merki núna. Fólk er tekið að halda aðeins meira að sér höndum en áður, hvort sem er í stórum fjárfestingarákvörðunum eins og húsnæðiskaupum eða bifreiðakaupum, eða bara í neyslunni sjálfri eins og tölur okkar um einkaneyslu sýna. Þetta skilar sér allt saman í minnkandi tekjum ríkissjóðs. Á sama tíma hafa verðbólguhorfur versnað sem þýðir að kostnaðarstig ríkissjóðs hefur aukist á sama tíma. Við sjáum að atvinnustigið er lítillega að versna og ákveðnar blikur þar á lofti. Allt skilar þetta sér í auknum útgjöldum ríkissjóðs.

Staðreyndin er sú að ríkissjóður hefur ekkert svigrúm til að takast á við þessa kólnun á næsta ári. Það er ekki minnsta viðleitni, hvorki af hálfu ríkisstjórnar né meiri hluta fjárlaganefndar, að hafa eitthvert borð fyrir báru þegar kemur inn í tvísýnni tíma. Það finnst mér miður að horfa upp á af því að mér sýnist í raun að þegar öllu er á botninn hvolft hvað varðar lög um opinber fjármál, alla umræðuna um vandaðri vinnubrögð sem við höfum farið í gegnum þingið á undanförnum árum, þá stendur ekkert eftir annað en einfaldlega mjög falleg umgjörð utan um jafn óvönduð vinnubrögð og áður. Sömu hagstjórnarmistökin og áður hafa verið gerð, sama útgjaldagleðin í hápunkti hagsveiflunnar eins og áður hefur verið gagnrýnt. Á þessu er ekki að sjá neinn efnislegan eða raunverulegan mun þrátt fyrir alla þá vinnu sem lögð hefur verið í bætta umgjörð. Það má til sanns vegar færa að upplýsingagjöfin er kannski meiri og það er horft til fleiri þátta, en kjarni málsins er auðvitað sá að það sé meiri ábyrgð í hagstjórninni við stjórnun ríkisfjármála og þar verður ekki séð að neitt hafi breyst. Við höfum gert nákvæmlega sömu mistökin aftur um stóraukin útgjöld ríkissjóðs í hápunkti hagsveiflunnar og stefna þessarar ríkisstjórnar er að reyna að halda þeirri þróun áfram á komandi árum, stefna sem mun ekki geta gengið eftir án þess að hækka skatta umtalsvert.

Það er líka áhugavert að horfa á sýn og stefnu þessarar ríkisstjórnar þegar kemur að lykilmálaflokkum. Ef við byrjum á heilbrigðismálum er þar vissulega aukið í útgjöld, en á sama tíma hefur verið skorin upp herör gegn einkareknum hluta heilbrigðiskerfisins án þess að því fylgi nokkur sýn á það hvort það skili ríkissjóði einhverjum ábata í formi hagkvæmari kaupa á þjónustu. Þetta nær svo langt að við erum að senda töluverðan fjölda fólks úr landi í liðskiptaaðgerðir þrátt fyrir að við vitum að hver aðgerð þar kosti þrisvar sinnum meira en ef hún fengist framkvæmd hér hjá einkaaðilum sem eru boðnir og búnir til að gera þetta.

Ég fæ ekki skilið hvernig svona forgangsröðun næst fram. Hér er um að ræða einhverjar pólitískar kreddur, en um leið að því er virðist vísvitandi sóun á opinberu fé. Það er ekki hægt að horfa á það öðruvísi. Og það er verið að ráðast í uppstokkun á heilbrigðiskerfinu þar sem ekki er að sjá að það sé nein kostnaðarleg greining að baki, bara sótt að hinum einkarekna hluta heilbrigðiskerfisins og gefnar yfirlýsingar um færslu tiltekinna þjónustuverka yfir til opinbera heilbrigðiskerfisins án þess að nein greining hafi farið fram, alla vega ekki verið kynnt, sem sýnir hver ávinningur ríkissjóðs af slíkum breytingum á að vera.

Þetta finnst mér heldur dapurt að horfa upp á út frá einmitt þessari skyldu okkar að gæta þess að hér sé vel farið með opinbert fé, að það nýtist okkur eins og best verður á kosið, að hagkvæmni heilbrigðiskerfisins okkar sé eins mikil og kostur er til þess að geta tryggt sem hæst þjónustustig. Maður verður ekki var við þetta í forgangsröðun ríkisstjórnarinnar, þvert á móti. Á sama tíma og vissulega er lofað auknum útgjöldum í heilbrigðiskerfinu þá sér maður ekki betur en að samtímis sé verið að grípa til aðgerða út frá pólitískum kreddum sem beinlínis draga úr skilvirkni þess sama kerfis sem þýðir verri nýtingu fjár í heilbrigðismálum. Til viðbótar er sérstakt að horfa upp á áherslur eins og t.d. varðandi uppbyggingu hjúkrunarheimila, sem margoft hefur komið fram í opinberri umræðu að verulegur skortur er á, fráflæðisvandi, eins ljótt og það orð er, Landspítalans er í hæstu hæðum og á sama tíma skerum við niður framlög til uppbyggingar í hjúkrunarrýmum fyrir aldraða. Ég gef rosalega lítið fyrir skýringar um að einhverjar framkvæmdir séu að tefjast. Ég held að það væri hægur vandi að koma öðrum framkvæmdum á koppinn stæði til þess pólitískur vilji. Ég held að þetta hafi einfaldlega verið handhæg skýring til að skera niður stóran útgjaldalið þegar ríkisstjórnin lenti í vandræðum með útgjaldaloforð sín. Það sýnir kannski öðru fremur að einmitt við þennan smávægilega hiksta sem kom í þjóðhagsspárnar núna milli 1. og 2. umr. og ríkisstjórnin þurfti að bregðast við þeim vanda sem því fylgdi, þá var þunga niðurskurðarhnífsins beint að velferðarmálum, að heilbrigðis- og félagsmálum.

Maður sér ekki neina tilraun ríkisstjórnarinnar til að horfa til annarra mögulegra þátta og ná fram aukinni hagræðingu á öðrum sviðum ríkisrekstrarins. Það má nefna einföld dæmi þessu til stuðnings. Af hverju hefðum við ekki getað skotið t.d. áformum um niðurgreiðslu ríkisins á bókaútgáfu á frest og staðið vörð um velferðarkerfið í staðinn? Hvað með ýmis önnur verkefni sem við erum að ráðast í? Ef við tökum þessa grófu helmingaskiptingu, þ.e. að helmingur ríkisútgjalda fari til heilbrigðis- og félagsmála og helmingurinn í eitthvað annað, mátti þá ekkert annað undan láta en að slá á frest uppbyggingu hjúkrunarheimila, taka 1,1 milljarð frá örorkulífeyrisþegum sem samsvarar u.þ.b. 55.000 kr. á hvern örorkulífeyrisþega sem þeir ekki fá á næsta ári? Ég held að þann hóp muni ansi mikið um þá fjárhæð, að klippa út ætlaða kaupmáttaraukningu örorkulífeyrisþega og ellilífeyrisþega, skilja þann hóp eftir án nokkurrar kaupmáttaraukningar og væntanlega með talsverða kaupmáttarrýrnun á næsta ári. Mér finnst það ótrúlega dapurt upp á að horfa á sama tíma og hér er ríkisstjórn með alla þessa útgjaldagleði. Maður hefði ætlað að hnífinn gæti borið niður einhvers staðar annars staðar en hjá þessum hópi.

Þegar við lítum síðan til menntakerfisins þá hefur verið talað um mikilvægi þess að ráðast í stórsókn í menntamálum, sem oft hefur verið sett fram sem útgjaldamarkmið en ekki gæðamarkmið. Stefnan hefur verið sett á viðmið við útgjöld sem hlutfall af landsframleiðslu án þess að þar sé að finna að baki einhver skýr gæðaviðmið, árangursviðmið, um menntakerfið. Það sem maður staldrar fyrst við er að samhliða því sem við tölum alltaf öll um, um mikilvægi þess að efla starfs- og iðnnám í landinu, þá hlýtur sá málaflokkur hvað minnsta hlutfallslega aukningu í útgjöldum milli ára hjá þessari ríkisstjórn. Enn og aftur fara ekki saman orð og athafnir.

Mér finnst dálítið sérstakt og áhugavert að bera saman upplifun mína af þeim tvennu fjárlögum sem ég hef komið hvað mest að á mínum stutta þingferli, annars vegar fjárlögum án ríkisstjórnar fyrir árið 2017, þar sem náðist ótrúlega góð og skilvirk umræða og vinna í fjárlaganefnd um hina raunverulegu pólitísku forgangsröðun í fjárlagavinnunni og þar var unnið þvert á alla flokka, og hins vegar vinna við fjárlagagerðina 2018, en hún var vissulega mjög knöpp í tíma, og sér í lagi núna fjárlagavinnan fyrir 2019. Þar kemur bara forskrift frá framkvæmdarvaldinu. Fjárlaganefnd, eins og ég upplifi það, er eiginlega skilin eftir algjörlega umboðslaus í þessari vinnu. Það var ekkert svigrúm skilið eftir fyrir fjárlaganefnd í breytingum milli 1. og 2. umr. því að ríkisstjórnin kom einfaldlega fram með breytingartillögur milli umræðna sem skildu nefndina eftir með nákvæmlega 0 kr. í raun og veru í svigrúm til að bregðast við einhverjum af þeim beiðnum sem nefndinni höfðu borist frá öllum þeim gestum sem komu fyrir nefndina. Þess vegna var brugðið á það ráð á endanum að rjúfa afkomuviðmið til að ná þó alla vega að gera eitthvað fyrir allan þann hóp. Síðan gerist þetta aftur núna á milli 2. og 3. umr. Það koma töluvert miklar og viðamiklar breytingar frá framkvæmdarvaldinu og svigrúm nefndarinnar sjálfrar til að bregðast við með einhverjum hætti er afskaplega takmarkað. Þó er bætt við um 200 milljónum til samans, en það eykur í raun bara enn frekar rofið á afkomuviðmiðinu, þessu 1% sem afkoma ríkissjóðs átti að lágmarki að vera.

Ég verð að segja eins og er að þegar við settum þessi viðmið á sínum tíma, eða þegar Alþingi setti lög um opinber fjármál og setti þær viðmiðunarreglur sem þar ættu að gilda, þá held ég að í ljósi þess hve veikar þær viðmiðunarreglur voru í raun fyrir fram, þá hefði þurft að gera þá algeru kröfu til okkar sjálfra að þetta væru grundvallaratriði sem ekki yrðu rofin, að við myndum ekki rjúfa þó þær reglur sem þar væru settar. En í fyrsta skipti sem á þetta reynir í raun og veru, í fyrsta skipti sem fjárlaganefnd er í þeirri stöðu frá því að lög um opinber fjármál voru sett að hagvaxtarspár batna ekki á milli umræðna heldur versna, það þrengir aðeins að, ekkert stórkostlega, bara aðeins, í ríkisbúskapnum, þá brjótum við grundvallaratriðin. Þessar afkomureglur verða harla lítils virði ef við ætlum ekki einu sinni að fara eftir þeim og voru þær nógu bitlitlar fyrir. Ef þær eru ekki einu sinni það grundvallaratriði að þeim sé fylgt, þá eru þær harla lítils virði. Og ef við rjúfum þetta grundvallaratriði núna, hvað næst? Göngum við þá ekki aðeins lengri næst? Við getum verið með 1% afgangsviðmið, en það skiptir kannski ekki höfuðmáli þótt við skilum ekki nema hálfu, þetta er innan skekkjumarka.

Þetta er enn ein birtingarmyndin á því agaleysi sem alltaf hefur verið hér í stjórn ríkisfjármálanna og heldur því miður áfram núna. Allt hefur þetta svo sem verið rætt áður í þessari umræðu, en því miður engu verið breytt í þeim efnum.

Við í Viðreisn munum leggja fram breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið við 3. umr. og okkar tilraun í þeim breytingartillögum er að reyna bara þó ekki sé nema aðeins að laga forgangsröðun fjárlagavinnunnar eins og hún er lögð upp af hálfu ríkisstjórnarinnar í 3. umr. Það sem við reynum þó af veikum mætti að gera er að leggja til aukna fjármuni til rannsókna og nýsköpunar í takt við þá umræðu sem verið hefur, að það vanti um 147 millj. kr. til þess að ekki þurfi að skera niður í raun og veru í þeim málaflokki. Um leið leggjum við til að niðurgreiðslu á útgáfu bóka verði einfaldlega frestað. Þar sparast 400 milljónir. Við leggjum til að almenn sjúkrahúsþjónusta á landsbyggðinni verði styrkt um 150 milljónir. Við í fjárlaganefnd höfum heyrt fjölmörg dæmi nefnd í yfirferð okkar yfir þessa málaflokka þess efnis að spítalar á landsbyggðinni séu ekki öfundsverðir af sinni stöðu. Má þar nefna ekki síst Vestfirði og Suðurnesin. Það hefur aðeins verið brugðist við vandanum norður á Akureyri, en við leggjum til 150 millj. kr. viðbót þarna inn. Við leggjum til að heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa fái sérstaka fjárveitingu upp á 200 millj. kr. og þeim fjármunum verði varið til að vinna á biðlistum hér heima fyrir, t.d. í liðskiptaaðgerðum þar sem við erum að láta sjúklinga bíða mjög lengi í dag. Það má alveg hafa það í huga þegar við tölum um hinn opinbera biðlista eftir slíkum aðgerðum, sem sagður er 12 mánuðir, að það tekur 6–12 mánuði fá viðtal hjá lækni til þess að komast inn á þennan sama biðlista, þannig að ekki veitir af fjármunum þarna. Og við leggjum til að það verði kveðið sérstaklega á um það að þessum fjármunum, til að hámarka nýtingu þeirra, verði varið hér innan lands en ekki með því að senda sjúklinga úr landi. Við leggjum til að bætt verði við að nýju 500 millj. kr. í uppbyggingu hjúkrunarrýma, það er aðeins hálf sú fjárhæð sem skorin var niður milli 1. og 2. umr., en við teljum það koma alla vega til móts við brýnustu þörfina. Við leggjum jafnframt til að 59 millj. kr. verði varið til Sjálfsbjargarheimilanna í takt við brýna fjárþörf þar, en jafnframt að 70 millj. kr. fari til Krabbameinsfélagsins.

Loks leggjum við það til í hagræðingarskyni að við uppskiptingu velferðarráðuneytisins verði ekki veitt viðbótarfjármagn heldur verði ráðuneytinu eða nýjum ráðuneytum einfaldlega falið að vinna úr því, enda teljum við í raun og veru ófært að skipulagi stjórnsýslunnar sé breytt með þessum hætti sem augljóslega hefur aukið óhagræði í rekstri ríkisins í för með sér. Í rauninni kom ágætlega fram í umræðunni að álit Alþingis ætti kannski eingöngu að varða fjárveitinguna til þessara mála en það myndi láta framkvæmdarvaldinu eða ríkisstjórn á hverjum tíma eftir að ákveða hvernig hún vildi skipta upp ráðuneytum. Þingsins væri bara fyrst og fremst að leggja mat á það hvort réttlætanlegt væri að verja meiri fjármunum.

Að lokum leggjum við það til, sem er veigamesta breytingin í þessu, að öryrkjum og eldri borgurum, ellilífeyrisþegum, verði tryggð 1% kaupmáttaraukning á næsta ári sem okkur reiknast til að kosti um 1.200 millj. kr. Þetta eru talsverð útgjöld. Á móti höfum við hins vegar lagt hér ítrekað til að breytingum á veiðigjöldum verði einfaldlega frestað, betri tími nýttur til á næsta ári að freista þess að ná fram einhverri þverpólitískri samstöðu um það mál. Það hafa svo sem ýmsar tölur verið nefndar í því samhengi, en ætla mætti að viðbótartekjur ríkisins á næsta ári vegna þessa yrðu 4–5 milljarðar kr., sem gera gott betur en að mæta þeim 1.800 millj. kr. viðbótarútgjöldum sem við leggjum hér til nettó. Raunar myndi það einnig duga til að koma ríkisfjármálunum inn fyrir 1% afkomuviðmiðið eins og hér hefur verið nefnt áður að hefur verið rofið af ríkisstjórninni.

Við vonum að sjálfsögðu að hér geti skapast ágæt samstaða um þessi verkefni, sérstaklega hvað varðar stöðu ellilífeyrisþega og örorkulífeyrisþega. Ef við horfumst í augu við það að nú þegar er ljóst að verðbólga þessa árs er orðin umtalsvert meiri en ráð var fyrir gert, tæp 4% a.m.k., og horfur á því að verðbólga á næsta ári geti jafnframt orðið talsvert meiri en ráð var fyrir gert, og að staða krónunnar, sem er einn helsti orsakavaldurinn í verðbólgunni inn á næsta ár, er talsvert veikari en Hagstofan gerði ráð fyrir í endurmetinni þjóðhagsspá og allt eins líklegt að verðbólga verði meiri en þessi áætluðu 3,6%, þá held ég að ekki sé vanþörf á að tryggja betur stöðu þessa viðkvæma hóps og ég trúi ekki öðru en að um það geti náðst góð samstaða í þinginu.