149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[20:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni prýðisræðu. Ég geri mér gjarnan far um að hlusta vel eftir þegar hv. þingmaður ræðir kjaramál, efnahagsmál í stóru samhengi og þróun ríkisútgjalda. Ég er sammála hv. þingmanni þegar hann ræðir þróun ríkisútgjalda, bæði til baka í tíma og svo ekki síður inn í framtíðina, að við séum í útgjaldavexti sem sér ekki fyrir að verði sjálfbær inn í framtíðina. Ég veit að hv. þingmaður er mjög meðvitaður um þá uppsöfnuðu þörf á mörgum sviðum sem er til staðar. Við getum nefnt samgöngurnar, við getum nefnt heilbrigðiskerfið, við getum nefnt menntamálin. Hv. þingmaður kom inn á að rúmlega 50%, 54,1%, ef ég man þetta rétt, fara í eitt ráðuneyti sem er velferðarráðuneytið, sem hv. þingmaður þekkir mjög vel.

Ég vil skilja eftir spurningar fyrir hv. þingmann í fyrra andsvari. Hv. þingmaður sagði að við værum á hápunkti hagsveiflunnar. Er það svo? Er það skoðun þingmanns? Ef við erum að beita okkur fyrir því að auka útgjöld til menntamála, samgangna, heilbrigðis- og velferðarmála til að mæta þessari uppsöfnuðu þörf, hvar vill hv. þingmaður skera niður á móti?