149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[20:04]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni og formanni fjárlaganefndar andsvarið og nota tækifærið til að þakka honum gott samstarf. Þótt mér þyki niðurstaðan alveg kolómöguleg var samstarf í fjárlaganefnd engu að síður mjög gott.

Þegar kemur að hinni dæmigerðu umræða um hvar við eigum að skera niður er nefnilega til tvenns konar niðurskurður á kostnaðinn. Það er annars vegar til hagræðing í ríkisrekstri þar sem við getum skilað jafn góðri eða jafnvel betri þjónustu fyrir minna fé, sem mér finnst vanta svo mikið upp á í hugsun í rekstri ríkisins. Og hvað á ég við með því þegar ég horfi t.d. á að maður þykist sjá sóun víða? Hvar eru áformin til að mynda þegar kemur að menntakerfinu? Við styttum stúdentspróf um eitt ár en um leið og komu upp hugmyndir um að fækka framhaldsskólum um einn með sameiningu lögðust stjórnarliðar þvert gegn slíku, jafnvel þótt það gæfi augaleið að þegar við værum að missa ígildi heils árgangs út úr framhaldsskólakerfinu okkar, u.þ.b. 4.500 nemendur, þá hlyti að vera einhvers staðar tækifæri til hagræðingar í þessu.

Þegar kemur að heilbrigðismálunum, velferðarmálunum í heild þá vitum við mætavel að með því að auka fjárveitingar til ákveðinna þátta, eins og t.d. sálfræðiþjónustunnar, tímanlegra aðgerða á borð við liðskipti og annað þess háttar, getum við sparað verulega útgjöld í kerfinu okkar til lengri tíma litið. Sálfræðiþjónusta getur dregið úr nýgengi örorku og sparað umtalsverða fjármuni í heilbrigðiskerfinu þegar fram í sækir. Sama má segja um að taka tímanlega á vandamálum eins og þegar kemur að liðskiptaaðgerðum og öðru slíku, við vitum að þetta er kostnaður sem hverfur ekkert frá okkur. Eins með hjúkrunarrýmin, að byggja þau upp og geta losað um (Forseti hringir.) á Landspítala og svo mætti áfram telja. Mér finnst oft vanta verulega upp á í ríkisrekstrinum að horft sé (Forseti hringir.) með einhverja heildaryfirsýn í huga á þau mál.