149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[20:07]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni. Hv. þingmaður er mjög glöggur á ríkisreksturinn, ég get alveg sagt það hér. Öll störf hans í hv. fjárlaganefnd bera þess vitni. Ég get ekki annað en tekið undir með hv. þingmanni um áhuga okkar á bættum ríkisrekstri. Ég er ekki viss um að við getum mætt þessum stóru tölum í uppsöfnuðu þörfinni í einu vetfangi þar. Varðandi viðmiðin eigum ekki endilega að binda okkur í einhver hlutföll af vergri landsframleiðslu, við eigum heldur að hanna árangursmælikvarða.

Hv. þingmaður nefnir framhaldsskólana. Þar erum við að ná tilætluðum árangri. Með styttingunni aukast framlögin á nemanda þótt heildarframlaginu, rúmlega 30 milljörðum sé haldið. Við höldum sjó í því. Ég hef meiri áhyggjur af því hvaða félagslegu afleiðingar þetta hefur til framtíðar.

Hv. þingmaður kom inn á afkomuviðmið og ég rengi ekki hv. þingmanna í því, hann áttar sig alveg á þessu. Við erum undir 1%. En bara svo að það sé sagt þá vill svo til að það skal setja fram með einum aukastaf og það bjargar málinu, þannig að við erum í 0,97 og þá hækkar þetta í 1. Við rétt sleppum með það. Auðvitað þarf að vera meiri bragur á því en þetta dregur samt fram það sem hv. þingmaður kom inn á um hversu bundin við erum við þessar aðstæður þegar við förum niður á milli efnahagsspáa.

Ég spyr hv. þingmann: Telur hann að við eigum að fara inn í lög um opinber fjármál og breyta þessu samhengi í 4., 5., 6., 7. og 10. gr.? Við erum alveg föst (Forseti hringir.) þegar kemur að einhverri hagsveiflustjórn.