149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[20:09]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru áhugaverðar vangaveltur hjá hv. þingmanni. Í stuttu máli mætti segja að afstaða mín væri þessi: Það er alveg rétt að þetta sníður okkur nokkuð þröngan stakk, sérstaklega þegar þrengir aðeins að í ríkisbúskapnum. Við sjáum að með þessari litlu breytingu, í grunninn sama landsframleiðsla á næsta ári samkvæmt spá en bara örlítið hærri verðbólguspá, myndaðist strax gat í afkomunni miðað við þetta. Stóra málið fyrir okkur hlýtur að vera eftirfarandi: Þegar við tökum það kjarnagildi laga um opinber fjármál að ríkisfjármálin séu sjálfbær, að við séum að hagsveifluleiðrétta okkur í áætlunum okkar, væri kannski miklu heilbrigðara að við hefðum til viðmiðunar, þegar svona lítils háttar breytingar eiga sér stað eins og hér er um að ræða, hvað þetta þýðir í hagsveifluleiðréttu umhverfi. Hvernig getum við horft á þetta til lengri tíma litið? Það er í raun og veru það sem mér finnst eiga að vera kjarni langtímastefnumótunar í ríkisfjármálum, að þetta sé heiðarleg framsetning, að við séum ekki að lofa útgjöldum sem við vitum að við getum ekki staðið við til lengri tíma litið öðruvísi en að hækka skatta, að við séum að stilla okkur af á hverjum tíma, bæði á tekju- og gjaldahlið og afkomumarkmiði út frá því, að til lengri tíma litið ætti þetta að vera sjálfbært og svo tiltölulega góður stöðugleiki í ríkisfjármálum. Svo getum við nýtt það svigrúm sem gefst hverju sinni ýmist til niðurgreiðslu skulda eða til að spýta inn í opinberar framkvæmdir, t.d. þegar kreppir að. En það sorglega í stöðunni núna (Forseti hringir.) er að eftir mjög djúpa niðursveiflu og sterka uppsveiflu stöndum við enn þá uppi með verulega uppsafnaða þörf í (Forseti hringir.) framkvæmdum ríkisins, hafandi ekki náð í halann á okkur.